Vegaframkvæmdir á Austurlandi

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:08:12 (1807)


[14:08]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var einfaldlega eins og ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar að hæstv. ráðherra gaf fulla ástæðu til þess að hann yrði spurður um þessa hluti en það er greinilegt að hann ætlar sér engu að svara. Hann hefur engu svarað um það hvernig eigi að skilja þessa klásúlu sem ég las úr fjárlögunum um það hvort það eigi að draga skerðingu markaðra tekjustofna Vegasjóðs frá skuldunum sem hefur verið stofnað til. Það hefði verið full ástæða til þess að hæstv. ráðherra hefði sagt hv. þm. frá því.
    Hann nefndi hér ferjurnar og flóabátana og þau miklu útgjöld sem Vegasjóður verður nú fyrir vegna þeirra. Hann hefur alla vega ekki haft neitt upp úr slagnum innan ríkisstjórnarinnar um það mál að Vegasjóður hefði orðið að taka þetta allt saman á sig bótalaust og halda áfram að borga peninga í ríkissjóð þrátt fyrir það. Hæstv. ráðherra hefur því ekki gengið mjög vel innan ríkisstjórnarinnar í slagnum um fjármagnið. Það er full ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af framtíð vegamála í landinu ef svona á að ganga fram að það er búið að taka verulega mikil útgjöld á Vegasjóð. Það er haldið áfram að skerða framlög til Vegasjóðs og það fjármagn er tekið beint í ríkissjóð en síðan ætla menn að fara í einhver stórátök utan vegalaganna án þess að endurskoða skiptingu vegafjár. Mér finnst þessi umræða ekki nógu markviss og góð og ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að bæta verulega ráð sitt í því að það er hann sem á að kynna stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og maður á ekki að frétta það á götuhornum eða á blaðamannafundum hvað þar standi til heldur á að vera hægt að spyrja hæstv. ráðherra um það og hann á að geta svarað þeim hlutum.