Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:12:57 (1809)

[14:12]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það er spurning hvort forseti mundi vilja gera okkur þann greiða að kanna hvort hv. 12. þm. Reykv. gæti hugsað sér að vera viðstaddur þessa umræðu en hv. 12. þm. Reykv. fór eins og kunnugt er með embætti félmrh. um nokkurra ára skeið. Ég bið forseta að kanna hvort þingmaðurinn geti hugsað sér að vera nálægur þegar þessi mál eru til umræðu.
    ( Forseti (SalÞ): Forseti mun koma þeim skilaboðum áleiðis.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir.

    Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að velta því fyrir sér á þessari stundu hvað það er eða verður sem mun standa upp úr þegar saga núv. ríkisstjórnar verður metin, þegar hún verður borin saman við þær ríkisstjórnir sem á undan fóru og vonandi einnig þær ríkisstjórnir sem á eftir koma. Hvað er það sem er alveg sérstakt í tíð þessarar ríkisstjórnar sem gerir Ísland öðruvísi á þessu tímabili en það var áður um nokkurra ára eða jafnvel áratuga skeið? Það sem blasir við í þeim efnum er að mínu mati tvennt: Það er í fyrsta lagi atvinnuleysið. Það er alveg greinilegt að atvinnuleysið er sá þáttur sem veldur því að það hafa orðið kaflaskil á Íslandi í tíð þessarar stjórnar þannig að það er alveg að réttu lagi hægt að tala um atvinnuleysisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl.
    En í öðru lagi held ég að það sé ekki nokkur vafi á því að það sem hefur verið að gerast að undanförnu og er sérstakt og öðruvísi en áður, það er ástandið í húsnæðismálum. Ég held satt að segja að það sé augljóst mál að ef það er eitthvað annað sem stendur upp úr þá er það ástandið í húsnæðismálum vegna þess að fram undir það að núverandi ríkisstjórn tók við voru margir að gera gælur við það að almenningur gæti af venjulegum launatekjum eignast íbúðir. Það er hins vegar sagnfræði. Unga fólkið, sem er núna að stofna heimili, les um að það hafi verið þannig fyrir nokkrum áratugum að hægt hafi verið að eignast íbúðir með venjulegum hætti af eðlilegum launatekjum en ekki er kostur á slíku núna.
    Hæstv. forseti. Ég fékk í dag tölur frá sýslumannsembættinu í Reykjavík um nauðungarsölur á íbúðum og öðrum eignum á undanförnum árum sem segja sína sögu. Á árinu 1988 voru nauðungaruppboð, sem fram fóru í Reykjavík, 103 talsins. Á árinu 1991 voru þau 250. Árið 1992 voru nauðungaruppboðin í Reykjavík einni 240. Árið 1993 voru nauðungaruppboðin 333 alls á árinu eða 27,7 á mánuði að meðaltali. Árið 1994 eru nauðungaruppboðin í Reykjavík orðin 345 eða 32,8 á mánuði að meðaltali.
    Þetta segir með öðrum orðum að frá árinu 1988 þegar sú stefna var mótuð í húsnæðismálum sem fylgt hefur verið í grófum dráttum síðan með ekki mjög mörgum frávikum eru nauðungaruppboð meira en þrefalt fleiri en þau voru þá. Þetta er býsna athyglisvert og er samkvæmt upplýsingum sem ég fékk áðan frá sýslumannsembættinu í Reykjavík.
    Mér bárust líka upplýsingar rétt í þessu hvernig fjöldi beiðna um gjaldþrot hefur þróast. Þar er auðvitað líka um afar athyglisverðar tölur að ræða. Það kemur t.d. fram að gjaldþrotaúrskurðir á síðasta ári í þessu umdæmi voru 525 á öllu árinu eða 43,7 að meðaltali á mánuði en gjaldþrotaúrskurðir á þessu ári eru 670 nú þegar eða 63,6 að meðaltali. Þannig að frá síðasta ári er gífurleg aukning á gjaldþrotaúrskurðum sem kveðnir eru upp í Reykjavík og er aðallega um íbúðarhúsnæði að ræða.
    Ég er með fjölmargar fleiri upplýsingar um þróunina í þessum málum. Ég er t.d. með upplýsingar í þingskjali um vanskil í húsbréfakerfinu þar sem kemur t.d. fram að útlán í húsbréfakerfinu eru núna eitthvað um 57 milljarðar. Vanskilin eru talin vera um 700 millj. hjá 3.500 einstaklingum. Fróðlegt er að bera þetta saman við 86-kerfið sem alltaf er verið að úthúða. Í 86-kerfinu eru heildarútlánin 43,6 milljarðar en vanskilin 337 millj. eða helmingi minni en í húsbréfakerfinu hjá 1.660 einstaklingum í staðinn fyrir 3.416 einstaklinga. Það er því alveg augljóst mál að húsbréfakerfið leysti engan vanda, það jók við vandann þegar upp er staðið því fólk réð ekki við að taka þau lán sem þar var boðið upp á. Staðreyndin er sú að þegar maður skoðar húsnæðisstefnu síðustu ára standa fjögur atriði algjörlega upp úr.
    Í fyrsta lagi upptaka húsbréfakerfisins sem skilur eftir sig þessa stöðu, þennan slóða vanskila og erfiðleika og það sem fólki dettur helst í hug að leysa vanda þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum með því að bjóða þeim upp á ný húsbréf.
    Í öðru lagi upptaka kaupleigukerfisins sem hefur auðvitað haft í för með sér býsna miklar breytingar á íbúðakerfinu í landinu. En hvaða árangri hefur kaupleigukerfið skilað fyrir fátækt fólk í landinu? Ég spyr.
    Í þriðja lagi er það auðvitað sú staðreynd að vextirnir hafa hækkað. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum hækkað vextina í húsnæðiskerfinu. Vextir á félagslegum lánum hafa verið hækkaðir úr 1% í 2,4% og í almenna kerfinu úr 3,5% í 4,9%.
    Í fjórða lagi er svo það sem einkennir kerfið að undanförnu, sú staðreynd að búið er að skera niður vaxtabætur. Þegar allt þetta bætist svo við aðra erfiðleika í þjóðfélaginu sem er atvinnuleysi, sem eru minnkandi tekjur og erfiðleikar hjá fólki er auðvitað ekki að furða þó þessi mál séu tekin til sérstakrar umræðu í þessari virðulegu stofnun.
    Á þskj. 54 flytjum við tveir þingmenn Alþb., ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, till. til þál. um greiðsluaðlögun húsnæðislána. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa tafarlaust til ráðstafana til að létta greiðslubyrði þeirra húsbyggjenda sem lent hafa í verulegum erfiðleikum með afborganir af fasteignaveðlánum húsbréfadeildar stafi greiðsluerfiðleikarnir af verulegri lækkun tekna vegna minnkandi atvinnu, veikinda eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum. Í því sambandi leggur Alþingi áherslu á eftirfarandi:
    a. að ríkisstjórnin hefji strax viðræður við lífeyrissjóðina um endurfjármögnun fasteignaveðlána og lægri vexti þannig að unnt verði að létta greiðslubyrði fólks verulega frá því sem nú er;
    b. að fjölgað verði í starfsliði Húsnæðisstofnunar svo að unnt verði að afgreiða fyrirliggjandi umsóknir um skuldbreytingar vegna greiðsluerfiðleika;
    c. að undirbúin verði lagafrumvörp þar sem meðal annars verði kveðið á um þak á greiðslubyrði miðað við laun, greiðsluaðlögun og annað sem nauðsynlegt verður talið til að framkvæma vilja Alþingis

samkvæmt þessari þingsályktun.
    Alþingi felur fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra að undirbúa þau lagafrumvörp sem nauðsynleg eru þannig að Húsnæðisstofnun geti frá áramótum hafið skuldbreytingar samkvæmt breyttum lagaforsendum.``
    Þetta var tillagan í heild, hæstv. forseti, og svo er það rakið í greinargerð að fyrir tveimur árum fluttum við flm. þessarar tillögu frv. til laga um greiðslufrest á fasteignaveðlánum vegna fjárhagserfiðleika. Því miður er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnin féllst ekki á tillögu okkar. Hún fékkst ekki til að taka á henni. Þáv. félmrh. og þáv. ríkisstjórn hafnaði tillögu okkar um breytingar á lögum til þess að létta greiðslubyrði fólks.
    Við fluttum tillöguna fyrst og fremst vegna þess að við teljum að í núgildandi lög vanti lagaheimildir til að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum. Ég held að reynslan sýni að það fólk sem hefur lent í að missa íbúðir sínar á allra síðustu árum hefði staðið æði mikið betur ef þáv. félmrh. og ríkisstjórn hefði ekki hafnað tillögum okkar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar.
    Við gerum ráð fyrir því að í þessi mál verði farið tafarlaust og með tillögunni birtum við frv. eins og við fluttum það á sínum tíma ásamt greinargerð þess þar sem ítarlega kemur fram hvernig við viljum fara í þau mál sem hér um ræðir.
    Í þskj. okkar á bls. 3 birtum við sögu ungra hjóna sem keyptu sér íbúðarhúsnæði fyrir fáeinum árum. Þau hófu byggingu íbúðarhúsnæðis árið 1988 og þau áttu dálítið fyrir þessu húsnæði til að byrja með. Þau sóttu um í 86-kerfinu. Þau voru dregin á svari mjög lengi. Það endaði með því að þau tóku húsbréfalán. Þau voru metin hæf til þess að standa undir tilteknu húsbréfaláni að tiltekinni upphæð. Síðan hefur það gerst í fyrsta lagi að þau hafa lækkað í tekjum af því að yfirvinnan hefur minnkað, yfirborganirnar hafa minnkað, atvinnan hefur almennt dregist saman. Aðrar aðstæður hafa mjög lítið breyst nema svo þær að núv. ríkisstjórn hefur sérstaklega hækkað skattinn á þessu fólki af því að það er búið að skera niður barnabætur einmitt hjá þessum aðilum sem mjög oft standa í þeim barningi sem hér um ræðir. Og það er búið að skera niður vaxtabætur hjá þessu fólki. Þessir einstaklingar standa núna frammi fyrir því að fara til Húsnæðisstofnunar og segja: Við þurfum stuðning. Hvað segir Húsnæðisstofnun? Húsnæðisstofnun segir: Það er ekki hægt að fá stuðning af því að þið eruð ekki komin í nægilega mikil vanskil. Þið verðið helst að lenda í verulegum vanskilum og fá nauðungaruppboðshótanir til þess að fá stuðning frá þessu kerfi.
    Niðurstaða þeirra er sú að sagt er við þau: Þið verðið að fara og selja íbúðina. Satt að segja hljómar það ekki mjög skynsamlega um þessar mundir vegna þess að ekki er hægt að selja. Mjög erfitt er að selja íbúðarhúsnæði um þessar mundir og þess vegna bæta þessi lán stöðugt við sig vöxtum og vaxtavöxtum og dráttarvöxtum og að lokum lendir þetta fólk iðulega í þeirri snöru sem birtist svo í nauðungarsölum og gjaldþrotum eins og þeim sem ég var að lesa upp tölur um áðan.
    Það er þessi veruleiki sem núv. ríkisstjórn hefur vanrækt að taka á. Þess vegna flytjum við þessa tillögu, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum á nýlegum miðstjórnarfundi okkar flutt tillögur um þessi mál sérstaklega varðandi lífskjör heimilanna þar sem við tökum sérstaklega á því sem við köllum og gerum tillögu um ,,Björgunarsjóð í húsnæðismálum``. Við teljum að það hafi verið farið svo illa með þennan málaflokk í tíð núv. ríkisstjórnar, farið svo illa með þennan málaflokk í félmrn. á undanförnum árum að grípa verði til sérstakra björgunaraðgerða til þess að koma til móts við það fólk sem hefur verið að taka lán á undanförnum árum. Það er alveg augljóst mál að þau stjórnmálasamtök sem fást núna við stjórnmálaverkefni í landinu verða að gera mjög rækilega grein fyrir því hvernig á að taka á vandamálum þessa fólks sem hefur orðið fyrir barðinu á okurkerfinu í húsnæðislánum, hringlandahættinum í húsnæðismálum og húsbréfafarginu sem allt átti að leysa en leysti ekki neitt. Það er alveg ljóst að þegar maður skoðar, eins og ég sagði í upphafi, hæstv. forseti, sögu þessara síðustu ára og ber þau saman við árin á undan og árin á eftir, þá stendur tvennt upp úr og gerir þessi ár söguleg. Það er annars vegar atvinnuleysið og hins vegar húsnæðiskerfi sem er með þeim hætti að þúsundir manna standa frammi fyrir þeim veruleika óvissunnar og erfiðleikanna og sjá ekki fyrir endann á þessu máli.
    Þess vegna spyr ég að lokum hæstv. félmrh., sem ég veit að hefur verið stutt í starfi: Í fyrsta lagi hvað sér hún fyrir sér sem lausn á þessum málum? Í öðru lagi getur hún fyrir sitt leyti fallist á þær tillögur sem við gerum í tillögu okkar? Í þriðja lagi geti hún ekki fallist á tillögur okkar hvaða aðrar tillögur telja menn hægt að nota í þessu sambandi vegna þess að ég segi að ekki má ljúka þessu þingi án þess að verði tekið á þessum þætti íslenska velferðarkerfisins, ljótustu vanrækslunni í þeim efnum núna á liðnum árum?
    Hæstv. forseti. Ég legg svo til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.