Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:29:18 (1810)


[14:29]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að ræða þessi mál og auðvitað hefði ég kosið að ég kæmi hér eftir skamman tíma í stóli félmrh. með lausnir á vanda allra þeirra sem eiga í erfiðleikum en það er ekki svo

og veruleikinn er ekki þannig.
    Þegar hv. þm. hóf mál sitt ræddi hann um sögu núv. ríkisstjórnar og hvernig hún yrði metin. Ég ætla í upphafi míns máls að fullyrða að þessi ríkisstjórn hefur náð ótrúlegum árangri í erfiðu efnahagsumhverfi og það er fráleitt að gefa sífellt mynd af því að það sé ríkisstjórnin sem hafi búið til atvinnuleysi. Þeir sem þannig tala vita betur og þeir vita að þeir geta eftir nokkra mánuði verið sjálfir í ríkisstjórn og átt þá ósk heitasta að geta brugðist við og unnið bug á atvinnuleysi og geta ekki gert það með þeim hætti sem þeir gefa mynd af á þeim tíma sem nú er.
    Ég er spurð að því hvað ég sjái sem lausn og hvernig mér lítist á tillögur hv. þm. og hvaða aðrar tillögur ég hafi. Þessu verður e.t.v. ekki svarað í fljótu bragði en ég ætla þó að reyna. Mig langar fyrst að nefna aðeins út frá því sem hv. þm. nefndi um nauðungaruppboð og hvernig þeim hefur fjölgað. Ég ætla að hverfa örlítið aftur í tímann. Ég ætla að hverfa aftur í lok síðasta kjörtímabils þegar ég flutti hér tillögu sem ég tel að hafi þá átt mikið erindi og hafi verið grundvallarmál í lausn vanda eins og þess sem við búum við nú og höfum búið við í langan tíma og það er að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og skuldbindingar og að kenna það í skólum að fara með þessi mál. Af hverju flutti ég þessa tillögu þá sem átti þá rétt á sér og á rétt á sér enn þann dag í dag? Það er vegna þess að einungis hjá því umdæmi, sem hv. þm. talaði um núna, embætti umdæmisins hér, voru 443 gjaldþrot ungs fólks skollin yfir á þeim tíma, í þeirri ríkisstjórn og ég fullyrði að sú ríkisstjórn var ekki að búa til alvarlegan vanda ungs fólks. Og hvað var þetta fólk ungt? Jú, það voru 17 21 árs, það voru 46 á aldrinum 22--24 ára og það voru 76 25--29 ára, 139 manns í gjaldþrotum á þessum aldri og 139 nokkrum árum eldri, alls 443. Auðvitað var þetta alvarlegt mál sem þarf að bregðast við. Að hluta til var þetta tengt húsnæðismálum þá og að hluta til öðrum orsökum.
    En svo ég víki að íbúðareigendum þá hafa greiðsluerfiðleikar íbúðarkaupenda verið meira eða minna viðvarandi vandamál frá upphafi áttunda áratugar. Ég minni á vandamál svokallaðs misgengishóps og Sigtúnshreyfinguna sem þá spratt upp. Ég minni á þann vanda sem skapaðist með upptöku verðtryggingarinnar og hvernig mál skipuðust á þeim tímum. Ég ætla ekki að fara á þessum tíma inn í það. Ég minni líka á það að hámarkslán Byggingarsjóðs ríkisins árið 1983 var rúmlega 1.600 þús. kr. en tíu árum seinna var hámarkslánið fjórfalt hærra. Það þurfti að fara í lausn þess vanda sem þá kom upp og til að leysa greiðsluerfiðleika vegna íbúðaröflunar frá þessum tíma sem ég er að rifja upp var stofnaður sérstakur lánaflokkur hjá Byggingarsjóði ríkisins 1985 til að breyta skammtímaskuldum í lán til allt að 40 ára. Í lok árs 1990 var samþykkt á Alþingi tímabundin heimild til fyrirgreiðslu í húsbréfakerfinu á árinu 1991 til handa þeim sem voru í greiðsluerfiðleikum og gátu létt greiðslubyrðina með skuldbreytingu. Samtals voru á tímabilinu 1985--1991 veitt um 7.000 lán vegna greiðsluerfiðleika að fjárhæð um 6 milljarðar.
    Mig langar aðeins til að skjóta hér inn vegna þess að ég var að skoða það í morgun að á árinu 1991 voru gefin út samkvæmt sérstakri heimild með lagastoð frá Alþingi um eins árs skeið liðlega 1.000 fasteignaveðbréf til aðstoðar í greiðsluerfiðleikum. Því miður er það svo í dag að um 51% þeirra er með um þriggja mánaða vanskil eða lengri tíma vanskil. Það segir okkur eitthvað um það að á þessum tíma hafa erfiðleikar fólks sem byrjuðu kannski fyrr verið að velta upp á sig og verið að fylgja okkur inn í tíma sem átti að skapa betri lausn í.
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð skammur tími til að gera þessum viðamiklu málum skil svo gott sé. En mig langar aðeins að víkja að þeim vanda sem við er að etja í dag. Á grundvelli reglugerðar var gert samkomulag á milli félmrn., Húsnæðisstofnunar ríkisins, Landsbanka, Búnaðarbanka, Íslandsbanka og sambands sparisjóða og í samstarfi við samtök lífeyrissjóða um sameiginlegt átak til að leysa vanda fólks sem á í erfiðleikum með að standa í skilum með lán til íbúðarkaupa. Forsenda skuldbreytinga af hálfu Byggingarsjóðs ríkisins var að fyrir lægi staðfesting á því að lánum skuldara við þær stofnanir yrði skuldbreytt. Einnig viljayfirlýsing um að lánastofnanir hafi samráð um að leita leiða til að leysa greiðsluvanda fólks þó að viðkomandi geti ekki fengið skuldbreytingu hjá stofnuninni, þ.e. uppfylli ekki skilyrði reglugerðarinnar um tekju- og atvinnuleysi. Það bárust um 1.250 beiðnir um skuldbreytingu á 13 mánaða tímabili til nóvember 1994. Húsnæðisstofnun hefur afgreitt 956 þeirra á þessu rúma ári. Þar af hefur verið samþykkt að skuldbreyta vanskilum hjá 573 umsækjendum en hafna hjá 369 umsækjendum. Umsækjendum sem var hafnað var veitt ráðgjöf og aðstoð til að ná fram skuldbreytingum hjá öðrum lánastofnunum. Rúmlega þriðji hver umsækjandi fékk þau ráð að selja íbúðina. Þar er vandi sem ekkert er hægt að líta fram hjá og ég tek undir það með málshefjanda að það er mjög alvarlegt þegar fólk er í þeirri stöðu að það er læst í skuldaviðjum vegna húsnæðiskostnaðar sem það ræður ekki við og ekki er hægt að aðstoða við að þá er ekki einu sinni hægt að selja. Ég tek bara undir þær áhyggjur. Því fyrr mætti vera að ég væri hérna megin borðs og teldi að það sé hægt að afgreiða þrátt fyrir góðan vilja, afgreiða þann vanda sem fyrir er.
    En við skulum líka líta á að ástæður vanda þeirra sem fengið hafa skuldbreytingu eru langoftast atvinnuleysi eða tekjulækkun eins og málshefjandi benti á og þar ber þess að geta líka að við höfum einu sinni verið þannig Íslendingar að við höfum gjarnan gert út á toppinn. Við höfum gert út á mikla vinnu, við höfum gert út á vinnu beggja. Stundum eru skuldirnar þess eðlis að það er eingöngu verið að fjárfesta í viðunandi húsnæði sem nauðsynlegt er. Í öðrum tilfellum hefur verið ráðist í fjárfestingar á draumahúsnæðinu og eftir á reynt eins lengi og hægt er að vonast til að komast í toppinn aftur.
    Virðulegi forseti. Mér vinnst ekki tími til að koma nánar inn á svör mín og vangaveltur við spurningum málshefjanda en ég verð bara að koma inn í umræðuna síðar.