Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:42:15 (1814)


[14:42]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég hefði nú kosið að hæstv. félmrh. hefði haft tíma til að klára ræðu sína hér í umræðunni áður en ég talaði. Það er að vissu leyti galli á þingsköpum að hún skyldi ekki getað klárað sína ágætu ræðu áður en umræðunni vindur frekar fram.
    Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst vegna þess að ég tel að þessi tillaga sé athygli verð. Ástandið í þessum málum er gjörsamlega óviðunandi. Ég tek undir það með hv. 1. flm. að það er útilokað að ljúka þingi nú í vetur öðruvísi en að ganga frá þessu máli með einhverjum viðunandi hætti. Ég ætla ekki að taka afstöðu hér og nú til þeirra tillagna í smáatriðum sem hér eru settar fram og drepið er á. En ég

tel að þær eins og annað og eins og margar fleiri tillögur eigi að koma til skoðunar við að leita lausna á þessum mikla vanda.
    Hæstv. félmrh. minntist á ótrúleg afrek ríkisstjórnarinnar. Mér fannst hæstv. félmrh. vera orðin fullhrifin af þeirri ríkisstjórn sem hún er nýsest í ef henni finnst frammistaða ríkisstjórnarinnar með þeim ágætum sem hún lét. Frá því segir Snorri að oflof sé háð. E.t.v. hefur hæstv. félmrh. verið að hæðast að forverum sínum og ríkisstjórninni allri í ræðu sinni. Skuldasöfnun heimilanna hefur náttúrlega á valdatíma núv. ríkisstjórnar orðið mjög alvarlegt vandamál. Þessi ríkisstjórn hefur verið að færa til þjóðarauðinn, færa hann frá hinum mörgu smáu í hendur fárra stórra. Það hefur verið rauði þráðurinn í þeirri pólitík sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur fylgt. Þeir hækkuðu vextina í upphafi og langt fram yfir það sem þurfti og með því móti var náttúrlega stuðlað að því að keyra atvinnulífið í fjötra og hækka skuldirnar hjá þeim sem á annað borð skulduðu og hins vegar að færa peninga til þeirra sem áttu peninga fyrir, gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur líka notað atvinnuleysið sem hagstjórnartæki og er hún fyrsta ríkisstjórn í langan tíma sem hefur gripið til þess ráðs. Atvinnuleysi er ákaflega vont hagstjórnartæki og ósiðlegt. Þar af leiðir að við eigum ekki að láta okkur detta í hug að líða slíkt hagstjórnartæki.
    Komið hefur í ljós að húsbréfakerfið gengur ekki upp, því miður. Þegar hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, kreisti húsbréfakerfið í gegnum þingið lét hún það í veðri vaka að þetta leystist allt af sjálfu sér. Hún bjó til einhvers konar naglasúpu sem þurfti ekkert í nema smávegis af nöglum. Síðan átti þetta að verða fínasta súpa. Reyndin hefur orðið sú að þessi súpa er gölluð. Nú er svo komið að fjórðungur húsbréfa er í vanskilum. Það segir sína sögu. Fyrir utan það að afföllin hafa náttúrlega verið glæpsamleg. Menn hafa tekið lán og fá kannski ekki nema þrjá fjórðu af láninu í hendur. Það eru okrarar sem haga sér svona.
    Húsbréfakerfið hefur hins vegar ákveðna kosti, því er ekki að leyna. 86-kerfið hafði ákveðna annmarka. Þar voru biðraðir og út af fyrir sig var eðlilegt að menn vildu leggja áherslu á að stytta þær en það var hins vegar gert með aðferð sem var ekki heldur gæfuleg. Húsbréfakerfið hefur orðið að nokkurs konar sjálfsafgreiðslu og það er þægilegt fyrir þá sem ráða við það að standa í skilum en það er ekki neitt góðverk fyrir hina sem eru komnir á fremstu nöf. Sjálfsafgreiðsla í stað biðlista hefur ekki reynst farsæl því að biðlistarnir leiddu ekki til þvílíkra stórvandræða sem húsbréfakerfið hefur gert. Þess vegna verður að breyta húsbréfakerfinu. Ég tel að einn af þeim þáttum sem ber að skoða sé sá hvort ekki væri tiltækilegt að breyta lánunum og lengja þau í t.d. 40 ár. Það minnkaði greiðslubyrði um verulegar upphæðir þannig að létt væri að nokkru þeim drápsklyfjum af fólki sem sumir eru komnir með. Það verður sem sagt að grípa til björgunaraðgerða með einhverjum hætti og það sem allra fyrst.
    Íslenskum fyrirtækjum hefur stundum verið bjargað með nauðasamningum og sértækum aðgerðum. Ég held að kominn sé tími til að við hugleiðum í alvöru hvort nokkurt undanfæri sé að bjarga litlum fyrirtækjum, þ.e. fjölskyldunum í landinu, með sértækum aðgerðum eitthvað í stíl við það sem stóru fyrirtækin hafa notið.
    Fyrir utan það hefur félagslega kerfið lent á villigötum. Það var vel hugsað í upphafi og allt hefur þetta verið gert af mikilli góðvild og það átti að leysa einhvern vanda. En félagslega kerfið hefur skapað vanda og í mörgum tilfellum meiri vanda en það leysti.
    Menn hafa freistast til í erfiðu atvinnuástandi að nota félagslega kerfið til þess að leysa iðnaðarvandamál, þ.e. til þess að iðnaðarmenn fengju vinnu hafa menn reist félagslegar íbúðir. Þetta hefur orðið að nokkurs konar atvinnubótavinnu. Hvaða vit er í því að gera þær kröfur sem gerðar eru í félagslega kerfinu, t.d. að áður en hægt er að flytja inn í íbúðirnar er gengið frá lóðinni? Mér finnst þetta tóm vitleysa.