Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:51:34 (1815)


[14:51]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi í tilefni þessarar umræðu segja nokkur orð um þá tillögu sem hv. 10. þm. Reykv. og 5. þm. Vestf. hafa flutt um greiðsluaðlögun húsnæðislána. Ég held að ekki fari milli mála að húseigendur sem hafa margir verið að reyna að koma yfir sig þaki hafa lent í verulegum vandkvæðum. Þau vandamál sem húseigendur hafa komist í eru vafalaust af mörgum toga spunnin, bæði vegna þess að tekjur hafa minnkað eins og hefur komið fram í umræðunni og einnig það að e.t.v. hafa menn reist sér hurðarás um öxl, byggt of stórt og tekið of mikið af lánum. En ég tel að sá vandi sem einnig hefur komið upp sé sá að ekki hefur tekist að byggja upp húsnæðislánakerfið með þeim hætti að það geti á viðunandi hátt sinnt þessari þjónustu, þ.e. að veita lán til húsbygginga, bæði í félagslega kerfinu og hinu almenna kerfi.
    Mjög margir bjuggust við því að húsbréfakerfið mundi leysa mikinn vanda. Ég var meðal þeirra sem töldu að yfirtaka húsbréfakerfisins væri til bóta og ég tel að það hafi verið svo að ýmsu leyti en hins vegar hefur það sýnt sig að húsbréfakerfið hefur verið allt of opið. Að því er virðist hefur fólk fullgreiðan aðgang án þess að tryggt væri að í því væri öryggiskerfi sem tæki á því ef aðstæður breyttust þannig

að greiðslubyrði yrði of þung af húsbréfalánunum. Ég tel að það sé þess vegna afar brýnt að líta yfir þetta að fenginni reynslu. Það verð ég að segja alveg eins og er að ég tel að Húsnæðisstofnun hafi ekki brugðist nægjanlega við til þess að reyna að létta húseigendum þær byrðar sem margir hafa kiknað undan.
    Ég verð að segja eins og er að ég hef saknað þess mjög að sá hv. þm., 12. þm. Reykv., sem sat í stól félmrh., skyldi ekki á meðan hún hafði aðstöðu til beita sér frekar og meira fyrir því að gera úrbætur og styrkja þetta kerfi, sérstaklega gagnvart þeim sem hafa lent í vandræðum. Fróðlegt væri að heyra hvað þessi tiltekni virðulegi þingmaður, hv. 12. þm. Reykv., vill segja við okkur núna þegar hún er komin úr stóli félmrh. og hvað hún ráðleggur þinginu að gera við þær aðstæður sem við búum við núna. Ég bíð spenntur eftir þeirri ræðu.
    Það er alveg ljóst að Húsnæðisstofnun hefur vissulega mjög vandasöm verkefni gagnvart þeim sem hafa tekið lán úr húsbréfakerfinu en einnig gagnvart því sem snýr að eldra kerfi. Ég held að ef ætti að samþykkja þá tillögu sem hér er til umfjöllunar þar sem lagt er til að fjölgað verði starfsliði í Húsnæðisstofnun, væri mikilvægara að Húsnæðisstofnunin leitaði eftir auknu samstarfi við aðrar lánastofnanir, við bankana, fremur en að opinberum starfsmönnum yrði fjölgað til þess að sinna þessu. Mjög margar lánastofnanir eða bankarnir hafa gengið fram fyrir skjöldu til þess að reyna að auðvelda húseigendum til þess að standa í skilum og ég hefði talið að það væri eðlilegra og raunar mikilvægara að Húsnæðisstofnunin leitaði meira samstarfs við bankana í þessum efnum.
    Varðandi önnur efnisatriði þessa frv. vil ég segja það að ég fagna því að þetta frv. skuli koma fram þannig að færi gefist á því að ræða þennan vanda, sem er vissulega uppi og var ekki ástæða til þess að draga á nokkurn hátt úr, því að vandi húseigenda er vissulega til staðar vegna þeirra breytinga sem hafa orðið tengt atvinnuleysi og minni tekjum og ég held að þingmenn hljóti að geta verið sammála því að á þessu þurfi að taka. Þess vegna fagna ég út af fyrir sig þessari tillögu. En ég er sannfærður um að hæstv. núv. félmrh. mun og vill taka á þessum málum og ég treysti hæstv. félmrh. mjög vel til þess.