Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:58:20 (1816)


[14:58]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir þær almennu undirtektir sem komu fram í máli hans. Þó að það liggi fyrir að hann var ekkert að taka undir efnisatriði tillögunnar í einstökum atriðum er hitt ljóst að hann gerir sér grein fyrir því eins og sjálfsagt flestallir hér að það verður að taka á þessum alvarlega vanda húsbyggjenda. Það er ekki hægt að hugsa sér að þessu þingi sem nú stendur verði lokið öðruvísi en á þessum málum verði tekið. Hér er um að ræða vanda sem snertir mörg þúsund heimili í landinu öllu og þess vegna er mjög mikilvægt ef á vandanum á að taka að allir flokkar helst komi að málinu og ég bendi á að 1986 gerðist það að samkomulag varð með fulltrúum allra flokka á Alþingi með þá lendingu sem á varð í húsnæðismálum, bæði stjórn og stjórnarandstöðu. Þó að menn séu ekki ánægðir með það samkomlag nú þá var það a.m.k. fordæmi fyrir því að menn gætu náð samkomulagi í stjórn og stjórnarandstöðu um mál af þessu tagi. Ég tel að málið sé það stórt að það er næstum að segja hægt að líkja því við meiri háttar áföll. Málið er af þeirri stærðargráðu. Þetta er milljarðamál, á því verði í raun og veru ekki tekið öðruvísi en allir flokkar komi þar að verkinu og auðvitað verður hæstv. félmrh. að hafa þar talsverða forustu.
    En ég kom hér fyrst og fremst upp til þess að fagna því að hv. 1. þm. Vesturl. tók almennt undir það að á málinu verður að taka.