Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:00:06 (1817)


[15:00]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns og tel það fagnaðarefni að hv. 1. þm. Vesturl. skuli hafa tekið undir meginatriðin sem liggja að baki tillögunni, viðurkennt að vandinn er fyrir hendi og hann er geigvænlegur og aðgerða er þörf nú áður en þingi lýkur snemma á næsta ári.
    Það sem ég vildi gera athugasemd við úr máli hans eru ummæli hans í garð Húsnæðisstofnunar í þá veru að í stað þess að fjölga starfsmönnum til að vinna upp biðlistann sem safnast hefur og myndast hefur frá fólki sem biður um greiðsluskuldbreytingu, að vísa því yfir í bankana. Það er því miður reynsla stofnunarinnar af greiðslumati bankanna að það þarf að fara yfir það aftur. Það virðist ekki vera nægjanlega traust það greiðslumat sem frá bönkunum kemur og verður að líta á það enda að sumu leyti skiljanlegt því bankarnir eru þarna ekki að gera greiðslumat fyrir sjálfa sig. Þeir ætla ekki að lána sína peninga út frá því greiðslumati sem þeir gera. Þeir ætla að lána peninga þriðja aðila, þ.e. byggingarsjóðanna. Það er auðvitað ekki eðlilegt að aðrir geri greiðslumat en þeir sem eiga að bera ábyrgð á verkinu og lána

peningana. Ég tel því að menn ættu frekar að fara þá leið að færa greiðslumatið frá bönkunum og inn í stofnunina alveg eða þá að láta bankana fara út í beina útlánastarfsemi, bera ábyrgð á útlánunum í ríkara mæli en gert er, en það er ein breytingin sem gerð var með húsbréfakerfinu að bankarnir losnuðu mikið til við húsbyggjendur úr sínum lánveitingum.