Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:09:15 (1821)


[15:09]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan í andsvari að ég fagna þeim undirtektum sem tillagan hefur fengið hjá ræðumönnum sem til þessa hafa tekið til máls um þáltill. Miðað við þær undirtektir virðist vera óumdeilt að menn viðurkenna að vandinn er fyrir hendi, menn viðurkenna að vandinn er mikill og menn viðurkenna líka að Alþingi verður að láta málið til sín taka og grípa til aðgerða til þess að koma til móts við fólk sem á í erfiðleikum. Þetta er nauðsynlegt að menn séu sammála um áður en menn geta gert sér vonir um að Alþingi muni yfir höfuð ná saman um aðgerðir, en fram til þessa hefur málið hins vegar strandað á hinum ýmsu varaformönnum og félagsmálaráðherrum Alþfl. sem hafa ævinlega neitað því að hér væri um að ræða eitthvert það vandamál að það réttlætti afskipti Alþingis. Og úrbætur sem lagðar hafa verið fram á Alþingi eins og t.d. frumvarpsflutningur okkar beggja flutningsmanna þessa máls sem við fluttum fyrir tveimur árum hefur ekki náð fram að ganga og var reyndar afar illa tekið af oddvitum Alþfl. í húsnæðismálum. Það er því ekkert sjálfgefið að þingheimur hafi verið eða sé sammála um að vandinn sé uppi og hann sé mikill. En þó hefur sú afstöðubreyting orðið að núverandi félmrh. Alþfl. hefur tekið undir það að vandinn er stór og gefið undir fótinn með að Alþingi þurfi að taka á honum. Það er sú mikla breyting sem hefur orðið á afstöðu manna hér á þingi að Alþfl. er ekki lengur að spyrna við fótum og draga lappirnar í þessum efnum. Það gefur nokkrar vonir um að þingmenn beri gæfu til að ljúka við og ná saman um afgreiðslu á þessu þingmáli og ná samkomulagi um aðgerðir til að mæta vanda þeirra sem ráða ekki við sínar skuldbindingar vegna íbúðarkaupa. En það mundi ég telja mikla hneisu fyrir Alþingi og þó ekki hvað síst fyrir stjórnarflokkana ef látið yrði hjá líða að afgreiða slíkar aðgerðir.
    Það sem menn þurfa að mínu viti að hafa að leiðarljósi í öllum sínum aðgerðum sem menn kunna að ná saman um á næstu vikum er tvennt: Að skapa öryggi fyrir íbúðareigendur, að skapa öryggi í stað þess öryggisleysis sem menn hafa verið að búa til jafnt og þétt í gegnum tíðina. Síðara atriðið er að viðurkenna að fólk sem er að kaupa íbúðir getur ekki borgað meira en ákveðið hlutfall af sínum launum til þessara íbúðarkaupa. Menn verða að tengja saman laun og afborganir lána. Það er bara þetta tvennt að mínu viti sem er nauðsynlegt að hafa í fyrirrúmi. Ef menn hafa þessi atriði sem undirstöðu aðgerða þá leysa menn þau vandamál sem uppi eru. Það er ekki víst að menn leysi þau þannig að allir verði sáttir við þau eða allir sammála en þá ná menn utan um meginorsök vandans og skapa fólki öryggi hvar sem það býr á landinu svo að það geti með öruggum hætti búið í sínum íbúðum og treyst því að afborganir og vextir af lánum fari ekki upp fyrir tiltekið hlutfall af launum sínum. Ef launin lækka verulega þá verði tekið tillit til þess og afborgunin lækki samhliða. Ef menn missa atvinnuna þá verði aðgerðir sem mæta því. Það er þetta sem menn þurfa á að halda fyrst og fremst.
    En því miður hafa íbúðareigendur slæma reynslu af stjórnvöldum í þessum efnum og það verður að segja eins og er að þetta öryggi var að nokkru leyti til staðar í löggjöf frá Alþingi sem sett var árið 1985 í lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána og náði til þeirra lána sem voru veitt úr byggingarsjóðunum. Í þeim lögum var settur varnagli við breytingum sem stjórnvöld mundu beita sér fyrir, íbúðareigandanum eða skuldaranum til óhagræðis þannig að afborgunin eða greiðslubyrðin hækkaði ekki þrátt fyrir breytingar ríkisvaldsins. Þar er fyrst og fremst um að ræða að í lögunum var settur varnagli gagnvart breytingum á vöxtum fasteignaveðlánanna.
    Í lögunum sem sett voru í tíð Alexanders Stefánssonar sem félmrh. var sá varnagli að hækkun á vöxtum í fasteignaveðlánunum leiddi ekki af sér hækkun á greiðslubyrði heldur kom hækkunin einfaldlega út í lengri greiðslutíma, lánin einfaldlega lengdust. Vaxtahækkunin leiddi ekki til þess að menn yrðu að borga hærra hlutfall á mánuði hverjum strax í þessi lán heldur fór vaxtahækkunin aftur fyrir höfuðstól lánsins.
    En illu heilli var þessi öryggisventill sem var einn drýgsti öryggisventill sem Alþingi hafði sett til að vernda hagsmuni íbúðareigenda, skapa þeim eitthvert lágmarksöryggi, tekinn af. Að kröfu hvers? Að kröfu Alþfl. Félmrh. Alþfl. setti það skilyrði að þetta yrði tekið út. Það var gert með sérstakri lagasetningu á vordögum árið 1991. Auðvitað með því hugarfari að fylgja svo eftir þeirri lagabreytingu með því að hækka vextina. Það var gert í kjölfarið, bæði í Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna voru vextirnir síðan hækkaðir. Það leiddi til þess að öll hækkunin var tekin beint úr vösunum á þeim sem voru að borga. Það var áætlað að vaxtahækkunin hafi numið liðlega 1 milljarði kr. á ári hverju sem greiðslubyrði þessara lána hækkaði nánast í einu vetfangi undir stjórn félmrh. Alþfl. á árinu 1991 og síðar.

    Þetta urðu húsbyggjendur og aðrir íbúðareigendur að bera bótalaust. Þeir urðu að bera þessa hækkun bótalaust. Þeim var sagt: Þið fáið vaxtabætur á móti þessari vaxtahækkun seinna. (Forseti hringir.) Ég spyr forseta er ekki nema átta mínútna ræðutími í þessari umræðu?
    ( Forseti (VS) : Það er rétt. Fyrir frummælendur er 15 mín. Hv. þm. telst ekki vera það.)
    Þá læt ég lokið máli mínu þar sem tíminn er búinn. Ég á það mikið eftir að ekki dugir að stela sér tíma hjá forseta.
    ( Forseti (VS) : Hv. þm. er heimilt að biðja um orðið aftur.)
    Ég þakka fyrir. Ég held ég þiggi það hjá forseta á meðan það er í boði.