Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:38:55 (1828)


[15:38]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er greinilega mjög viðkvæmt að ræða um fortíðina og sögu síðustu ára í húsnæðismálum við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En ég held að okkur gangi illa að glíma við þetta vandamál og leysa það nema skilja hvað gerst hefur og átta okkur á því hvers eðlis vandinn er. Þá þýðir ekki að flýja frá því að ræða það sem gerst hefur í þessu kerfi á undanförnum árum.
    Ég sagði ekki að frumorsök vanda heimilanna og aukning skulda þeirra væri í sjálfu sér húsnæðislánakerfið. Hins vegar fullyrði ég að það endurspeglar þann vanda sem er á ferðinni, hvernig skuldir heimilanna þar á meðal lausaskuldir í bankakerfinu hafa verið að vaxa síðustu ár. Það endurspeglar líka þann vanda að viðbrögð í ráðherratíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi greiðsluerfiðleika í húsnæðislánakerfinu og húsbréfakerfinu, að veita mönnum bara meiri húsbréf, gengu ekki upp. Enda eru flest þau lán komin í vanskil nú þegar. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir verður að gera betur en hún hefur gert í því að svara hvers eðlis þessi vandi er og hvernig eigi að bregðast við honum.