Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:14:51 (1840)


[16:14]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú ekki tvöfeldni í máli mínu. Það byggist einfaldlega á þeirri staðreynd að menn eru búnir að lána fólki mikla peninga. Stjórnvöld hafa breytt forsendum fyrir endurgreiðslum þeirra þannig að margir geta ekki lengur staðið við sínar skuldbindingar. Þess vegna verða menn að bregðast við því. Það er hins vegar vel hægt að gagnrýna hvernig kerfi menn hafa notað til að lána peningana eftir og er engin tvöfeldni í því að hafa uppi gagnrýni á kerfið annars vegar og hins vegar að hafa uppi tillöguflutning til að mæta vanda þeirra sem eru komnir í vandræði vegna kerfisins m.a.
    Hins vegar vil ég segja það varðandi það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um biðraðakerfið, það er biðraðakerfi í dag. Það hefur ekki verið lagt niður. Alþfl. hefur ekki lagt niður biðraðakerfið, hann hefur tekið upp að sumu leyti biðraðakerfið, m.a. í félagslega íbúðalánakerfinu og hefur verið að lengja biðraðirnar í því kerfi með því að draga úr fjárveitingum til þess.
    Ég vil minna hæstv. ráðherra á frétt í síðasta tölublaði Sjálfsbjargarfrétta. Þar kemur fram að biðlistinn eftir íbúð hjá Öryrkjabandalagi Íslands, hússjóði þess, er orðinn svo langur að það er búið að loka biðlistanum. Það eru 650 manns, lágtekjufólk, sem eru á þessum biðlista og það er búið að loka honum. Það er ekki tekið lengur við nýjum umsækjendum inn á þennan biðlista. Hvað ætlar hæstv. félmrh. að gera til að veita þessu fólki úrlausn? Jú, hún ætlar að skera niður úthlutanir úr félagslega lánakerfinu um 300 íbúðir. Það verður nú ekki til þess að höggva á þennan biðlista, virðulegi ráðherra.