Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:18:28 (1842)


[16:18]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að hægt gengur að byggja félagslegar íbúðir á þessu ári og margir hafa dregið við sig að hefja framkvæmdir, eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum á lánskjörum þeirra íbúða. Hækkun vaxta og hækkun afskrifta, sem gerir það að verkum að það er orðið svo dýrt að búa í þessum félagslegu íbúðum að fólk hefur ekki efni á því, sérstaklega ekki lágtekjufólk. Það eru verk Alþfl. í þessum málaflokki að hafa frumkvæði og forustu um að breyta lánakjörum svo mikið að fátækt fólk hefur ekki efni á að búa í þeim, virðulegi forseti.
    Það eru verk Alþfl., hvort sem hann er í ríkisstjórn nú eða þess hluta Alþfl. sem er utan ríkisstjórnar. Það hefur m.a. leitt til þess að fæðingarbær ráðherrans, Ísafjörður, skilaði nýlega 10 heimildum sem hann hafði fengið til að byggja íbúðir fyrir lágtekjufólk og var þá til mjög langur listi fólks sem vildi komast í íbúðirnar, en núna voru svo fáir sem gáfu sig fram að þeim heimildum var einfaldlega skilað, þ.e. það voru ekki til umsækjendur, það var ekki til fólk sem treysti sér til að búa í þessum íbúðum af því að þær eru orðnar svo dýrar vegna lagabreytinga og annarra verka sem Alþfl. hefur haft frumkvæði að. Það væri fróðlegt að fá svör við því frá hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að lækka vextina í félagslega íbúðalánakerfinu eða lækka kostnaðinn að öðru leyti sem hefur verið hækkaður með lagasetningu, eins og t.d. afskriftakostnaðinn.