Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:20:38 (1843)


[16:20]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og hæstv. félmrh. fyrir umræðuna, hún hefur verið gagnleg. Hér hafa komið fram margar ágætar hugmyndir og ég heyri ekki betur en að í grófum dráttum sé góður skilningur á því meðal þingmanna að það þurfi að taka á þessum málum, þessum ægilegu skuldavandamálum sem fólk stendur núna frammi fyrir og ræður ekkert við. Það sem ég tók eftir í máli hv. 12. þm. Reykv., sem er að vísu því miður farinn af þessum fundi, var eitt og annað mjög athyglisvert og ég ætla ekki að fara að svara því hún er farin. Mér fannst koma fram hjá hv. þm. ákveðin tregða við að viðurkenna þann vanda sem um er að ræða og það er kannski að mörgu leyti skiljanlegt hjá hv. þm. vegna þess að hún er að mörgu leyti höfundur að því húsnæðiskerfi sem við búum við í dag, bæði kaupleiguíbúðunum, sem voru aðalkosningamál Alþfl. 1987, ef ég man rétt, og síðan húsbréfakerfinu, sem voru stórt kosninga- og baráttumál hjá Alþfl., ég hygg líka 1987. Þegar kemur að umræðum um þessi mál þá hættir fyrrv. hæstv. félmrh. til þess að grípa til málflutnings eins og þessa að segja: Þegar Alþb. fór með húsnæðismál þá voru lánin ekki nema 15% af byggingarkostnaði íbúða. Þetta segir hins vegar ekki neitt, þetta segir ekki nokkurn skapaðan hlut. Staðreyndin er sú að á þessum tíma sem hv. þm. er þarna að vitna til þá var á Íslandi byrjað á um 1.800--1.900 íbúðum á ári, en það er núna komið niður í 1.300--1.500 og þá voru nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði svo að segja óþekkt fyrirbrigði. Af hverju? Af því fyrst og fremst að þrátt fyrir allt var það þannig að menn voru þá með hagstæðari lán í heild þegar upp var staðið og okurvaxtakerfið hafði ekki haldið innreið sína.
    Þannig að ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það urðu algjör kaflaskil í þessum málum 1983 þegar vísitalan var tekin úr sambandi með þeim hætti sem þá var gert, án þess að taka lánskjaravísitöluna um leið og svo 1984 þegar vextirnir voru gefnir algjörlega frjálsir. Þá urðu kaflaskil í þessum málum og þá varð til misgengishópurinn. Þá var farið af stað með mikla hreyfingu í landinu sem m.a. hafði þau áhrif að 1985 náðist í þessari virðulegu stofnun samkomulag um breytingar á húsnæðislögunum, m.a. fyrir atbeina þáv. hæstv. félmrh., Alexanders Stefánssonar, þar sem var gert ráð fyrir því í breytingum á húsnæðislögunum að fólk yrði ekki fyrir stöðugt þyngri greiðslubyrði af lánunum þó um hækkanir eða breytingar á vöxtum yrði að ræða. Ég tel að afnám þessa ákvæðis frá 1985 hafi verið eitt það

versta sem hefur gerst í húsnæðismálum í landinu mjög lengi. Ég hvet mjög eindregið til þess að við athugun á heildaraðgerðum í húsnæðismálum þá verði það athugað að taka þetta ákvæði úr lögunum frá 1985, sem var sett inn þar í félagsmálaráðherratíð Alexanders Stefánssonar, að það verði tekið hér inn aftur.
    Síðan er það auðvitað ljóst, sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að hún var alltaf í stríði við samtök launafólks. Hún sagði upp samningunum við lífeyrissjóðina, hún setti fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar út úr húsnæðismálastjórn þannig að í raun og veru varð það þannig að það var aldrei hægt að vinna með eðlilegum hætti gagnvart samtökum launafólks í þessu efni og það var slæmt. --- Af hverju? Fyrst og fremst vegna þess að samtök launafólks og atvinnurekendur í landinu eiga lífeyrissjóðina saman. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að það verði farið í að bæta samskipti ríkisins og lífeyrissjóðanna ef menn á annað borð ætla sér að ná utan um fjármögnunarvanda þessa húsnæðiskerfis. Ég vil hins vegar ekki eyða lengri tíma í að tala um það sem fram kom í máli þessa hv. þm. enda hefur hún vikið af fundi og vafalaust verður kostur á að gera það síðar.
    Ég vil aðeins leyfa mér að nefna nokkur atriði sem mér finnst að við eigum að staldra við, fyrir utan það að ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem tillaga okkar hv. 5. þm. Vestf. hefur fengið. Þau atriði sem ég vil staldra við eru þessi:
    Ég tel að staðan sé núna þannig að það sé í fyrsta lagi nauðsynlegt að grípa til eins konar björgunaraðgerða vegna heimilanna í landinu, sérstakra björgunaraðgerða, sem kosta vafalaust talsvert mikla fjármuni. Ég leyfi mér að gera mér vonir um það að hér í þessari virðulegu stofnun sé áhugi á því að mynda slíkan sjóð, björgunarsjóð heimilanna, þannig að á þessum málum verði tekið þegar fyrir næstu kosningar og áður en þessu þingi lýkur. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þau skilaboð komist mjög skýrt á framfæri við núv. hæstv. félmrh. að við séum tilbúin til þess að veita henni stuðning í þeim efnum að tryggja fjármuni til þess að þessum björgunarsjóði verði komið á.
    En fyrir utan þær aðgerðir sem þar væri um að ræða þá tel ég augljóst að aðgerðir næstu vikna, mánaða og missira í húsnæðismálum, hljóta að verða samsettar úr nokkrum meginþáttum. Það fyrsta sem ég nefni þar, hæstv. forseti, er lenging almennu lánanna, þ.e. breyting á fasteignaveðlánunum og endurfjármögnun þeirra með samningum við lífeyrissjóðina. Ég segi við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ég tel að það sé raunsætt að reyna þetta, fara í þessar viðræður við verkalýðshreyfinguna.
    Í öðru lagi tel ég að það eigi að fara í skipulegar viðræður við eigendur lífeyrissjóðanna um að lækka vextina þannig að vextir á húsbréfum verði ekki 6% heldur 5%. Þeir sem eru með gömlu bréfin upp á 6% þeir geti fengið ný bréf upp á 5% og það mundi muna geysilega miklu í mjög mörgum tilvikum og ég er viss um að það væri hægt að ná lendingu í þessum málum við eigendur lífeyrissjóðanna. Ég bendi t.d. á samþykkt Sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands frá því í gær þar sem var sérstaklega fjallað um húsnæðismálin sem hlýtur að þýða það að Alþýðusambandið væri tilbúið til að taka á þessu máli.
    Í þriðja lagi þarf að taka á félagslega húsnæðiskerfinu. Þar þurfa menn að velta því fyrir sér, sem við ræddum aðeins áðan, hvort það er hugsanlegt að breyta aðeins skilunum á milli almenna kerfisins og félagslega kerfisins þannig að þegar fólk er komið í vandræði í almenna kerfinu og getur ekki selt þá séu skapaðir möguleikar til þess að breyta þeim íbúðum sem fólkið er með á sínum vegum í félagslegar íbúðir og koma málum þess fyrir með öðrum hætti en verið hefur. Ég held að það sé augljóst mál að við leysum ekki þennan vanda öðruvísi en að taka þannig á málum, auk þess sem það mætti náttúrlega hugsa sér að það yrði til einhver aðili sem eignaðist þessar íbúðir sem fólk er í vandræðum með. Ég verð hins vegar að segja það að ég tel að það sé flókið að sjá fram úr því að það væri skynsamlegt að ríkið eignaðist þessar íbúðir. Ég tel að það væri ekki skynsamlegt. Ég tel hins vegar að það mætti hugsa sér að ríkið ætti aðild að þessu átaki og sveitarfélögin kæmu inn í það með skipulegum hætti og jafnvel verkalýðsfélögin og aðrir eigendur lífeyrissjóðanna.
    Í fjórða lagi held ég að það sé nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að ef við ætlum að taka á þessum húsnæðismálum með skipulegum hætti þá verður að verða hér til leiguhúsnæði í stórum stíl. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að við komumst upp með það, liggur mér við að segja, að vera hér með húsnæðiskerfi í landinu þar sem ekki er gert ráð fyrir leiguhúsnæði í stórum stíl. Allar grannþjóðir okkar eru með leiguhúsnæði í verulegum mæli og það er alveg útilokað fyrir fólk að ráða við þessi húsnæðismál, mjög marga, vegna þess að efni leyfa það ekki og þess vegna eiga menn að skoða það að byggja upp leiguhúsnæði í stórum stíl með stuðningi húsaleigubótanna, eins og við alþýðubandalagsmenn höfum reyndar gert tillögu um.
    Í fimmta lagi tel ég að það eigi að fara í skipulega samvinnu við lífeyrissjóðina og menn eigi að reyna að horfa á þetta húsnæðiskerfi til 10--20 ára eða svo. Ekki sem skammtímalausn á vanda, heldur eigi menn að horfa á hlutina í lengra samhengi og reyna að átta sig á því, hvað þurfum við af íbúðum, hvað eigum við af íbúðum og hvernig getum við komið málum þannig fyrir að fólk geti búið í húsnæði hér á Íslandi við mannsæmandi kjör. Því það er sem kunnugt er nauðsynlegt að búa í húsnæði, ekki síst í löndum þar sem er eins kalt og í þessu landi.
    En það hefur kerfið á Íslandi ekki viðurkennt. Menn hafa verið að borga 40.000, 50.000, 60.000 og 70.000 kr. á mánuði fyrir það að hafa þak yfir höfuðið.
    Í sjötta lagi tel ég að menn eigi að íhuga það mjög alvarlega og það mætti jafnvel gera það strax, að taka upp þetta ákvæði úr Alexanderskerfinu frá 1985, sem við höfum hér gert að umtalsefni og setja

það inn í húsnæðislög þegar á þessum vetri.
    Að lokum þetta, hæstv. forseti: Mér finnst hafa komið fram í þessari umræðu skilningur á því frá talsmönnum allra flokka sem hér hafa talað að það þurfi að taka á þessum málum og að núverandi kerfi og ástandið í húsnæðismálum sé ekki nærri nógu gott. Undir það hafa í rauninni allir tekið, m.a. hæstv. núv. félmrh. og ég tel að það sé mjög mikilvægt. Ég tel að við þurfum að vinna með svipuðum hætti og gert var 1985, þ.e. við reynum að ná samstöðu fulltrúa allra flokka í þinginu um að taka á þeim ferlega skuldavanda sem núna blasir við þúsundum heimila í landinu.