Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:36:28 (1848)


[16:36]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu og er rétt að undirstrika það, að húsnæðiskerfið fer ekki í aðgerðir fyrr en eftir þriggja mánaða vanskil. Hv. 12. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, var að benda á þetta og gera samanburð á bönkunum sem ekki bíða í þrjá mánuði. En þetta sýnir mér það að staðan í húsbréfakerfinu er þess verri ef fjórðungur lánanna er búinn að vera í vanskilum lengur en í þrjá mánuði. Þá er mikið af lánum sem eru í vanskilum í mánuð eða tvo.
    Það sýnir okkur bara það að staðan í húsbréfakerfinu er mjög alvarleg. Það þýðir ekkert að kenna 86-kerfinu um það hvernig komið er. Vandræði fólks skapast ekki nema að litlum hluta af því sem skeði fyrir tíma húsbréfakerfisins. Mjög margir af þeim sem nú eru að missa húsnæði sitt voru á grænni grein þá og áttu engin viðskipti við 86-kerfið.
    Það var hálfhlálegt þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að biðja menn að vera ekki að ala á væntingum. Ég veit ekki hver hefur í þessari stofnun verið ötulli við það að ala á væntingum undanfarinn áratug heldur en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hún vill kannski hafa einkarétt á því að ala á væntingum. Hún er alandi á væntingum í símann út og suður talandi við alþýðubandalagsmenn, venjandi þá frá Ólafi Ragnari og mér finnst þetta vera hlálegt þegar hún er að vara okkur við að ala á væntingum. ( Gripið fram í: Þú ert á móti því.) Ég vil hafa rétt til að ala á væntingum eins og mér sýnist og það meira að segja raunhæfari væntingum heldur en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er að ala á.
    Mér finnst endurfæðingin á hv. þm. hafa tekist helsti klaufalega. Hv. 12. þm. Reykv. kemur beint úr ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og lætur svo eins og hún sé saklaus og góð. Bara fortíðin er gleymd. Það er rétt aðeins að hún rankar við sér ef minnst er á húsbréfakerfið og húsaleigubætur. Þetta eru tvö stikkorð sem hún man frá tíð sinni sem félmrh. í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Atvinnuleysi kemur henni ekkert við. Skráði hún það þó í öll þessi ár. ( Gripið fram í: Skuldir heimilanna.) Skuldir heimilanna koma henni ekkert við. Og hún kannast ekkert við vandræði fólks og finnst hún ekki eiga neina sök á því.
    Hæstv. félmrh. tók það fram að hún væri stjórnarsinni og það voru engin tíðindi fyrir mig. Jafnframt lýsti hún ábyrgð á hendur sér fyrir verk ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það var ekki nema eðlilegt að hún gerði það, það var að vísu nokkuð hraustlegt því hæstv. félmrh. langar til að vera vinsæl og vinna góð verk. En það er alveg óþarfi þó hæstv. félmrh. sé stjórnarsinni að vera að oflofa ríkisstjórnina og fara með einhverjar fjarstæður um afrek hennar og árangur eins og hún gerði hér í ræðustól.
    Hæstv. félmrh. minnti á það að gjaldþrotabeiðnum hefði fækkað og tók það til marks um eitthvað batnandi ástand. Það er alls ekki staðreynd. Gjaldþrotabeiðnum fækkar vegna þess að nú er orðið svo dýrt að biðja um gjaldþrot. Það er orsökin fyrir því að gjaldþrotabeiðnum hefur fækkað. Nú þurfa menn að gjalda peninga fyrir það að biðja um gjaldþrot sem þeir þurftu ekki nema í litlum mæli áður.
    Hæstv. félmrh. orðaði það eitthvað svoleiðis að þó ekki væru nema nokkrir tugir heimila í vanda þá yrði að snúa sér að þessu verkefni. Ég get frætt hæstv. félmrh. um það að það eru fleiri en nokkrir tugir heimila í vanda. Það eru þúsundir heimila í vanda. Þúsundir heimila sem eru að leysast upp vegna erfiðs efnahagsástands sem með einum og öðrum hætti er hægt að rekja til verka ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.
    Við bindum að sjálfsögðu öll vonir við það að hæstv. félmrh. vinni gott starf í sínu ráðuneyti þann stutta tíma sem henni er mældur þar tími. Ég vona að hún sitji þar ekki nema til kosninga. Það ætla ég að vona að guð gefi. Við munum styðja, a.m.k. við framsóknarmenn, allar skynsamlegar aðgerðir sem hún kemur til með að stinga upp á til úrbóta í húsnæðiskerfinu, en það duga bara engar smáskammtalækningar og það er það sem ég óttast að hæstv. félmrh. sé að undirbúa. Ég held að hún sé að elda einhverja smárétti handa þjóðinni sem gagnast henni ekki neitt að ráði. Það er eitt brýnasta verkefnið í þessu þjóðfélagi að bjarga þeim sem nú eru í snörunni og að breyta húsnæðiskerfinu þannig að fólk lendi ekki í óbotnandi vandræðum.