Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 17:26:29 (1851)


[17:26]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu nú er að mínu viti allrar athygli vert og fyllsta ástæða til þess að fara ítarlega yfir efni þess og leitast við að komast að niðurstöðu þannig að unnt verði að finna sameiginlega niðurstöðu sem menn geta sæst á og afgreitt málið með þeim hætti.
    Ég þakka flm. fyrir það framtak að leggja þetta frv. hér fyrir þingið. Ég tel fulla ástæðu til þess að löggjafarvaldið setji á fót nefnd sem fari yfir lánveitingar undanfarinna ára og reyni að finna skýringar á þeim. Það er ekki sjálfgefið og alls ekki eðlilegt að þeir sem valdir hafa verið til þess að stjórna útlánum stórra fjárfestingarlánasjóða, svo og bankastofnana, geti búið við það öryggi að þurfa aldrei að svara Alþingi fyrir um gjörðir sínar og gefa skýringar á þeim. Það er óeðlilegt fyrirkomulag sem þessir aðilar hafa búið við á undanförnum árum, að geta búið í sínum verndaða heimi umkringdir af vilhöllum mönnum og oft og tíðum pólitískt röðuðum sem verja bæði þessa menn sína og sínar eigin ákvarðanir og leitast við að skjóta skildi hver fyrir annan þegar einstök málefni koma til umræðu sem er því miður allt of sjaldan.
    Ég vil þó segja um þetta frv. að mér finnst sá galli á því að því er of þröngt skorinn stakkur. Ég tel að það ákvæði í 2. gr. frv. um tilgang rannsóknarinnar sem á að einskorðast við athugun á því hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum stofnana og helstu skuldunauta sé of afmarkað og skilji eftir of marga þætti sem líka er ástæða til að rannsaka. Jafnframt er það líka of óljóst þannig að það gefur mönnum færi á að þræta um hvað séu eðlilegir viðskiptahættir og óeðlilegir. Því teldi ég að það ætti að rýmka hlutverk nefndarinnar sem á að koma á fót og fela henni að kanna útlánatöpin og koma

fram með skýringar á þeim, hvort sem hægt væri að rekja eitthvað af því til óeðlilegra viðskiptahátta eða til annarra ástæðna. Ég held að við þurfum á því að halda að fá skýringar á hvernig á því standi að bankastofnanir og útlánastofnanir aðrar hafa þurft að leggja tæpa 45 milljarða kr. á afskriftareikninga á örfáum árum og að meiri hlutinn af þessu fé sé þegar afskrifaður og tapaður. Það eru of miklir fjármunir til þess að unnt sé að láta kyrrt liggja. Það verður að rannsaka það mál að mínu viti.
    Það er fleira sem kemur til greina sem skýringar á því heldur en bara það sem nefnt er í frv., svokallaða óeðlilega viðskiptahætti. Það eru fleiri atriði sem þarf að taka til athugunar og að mínu viti eru skýringar á því hvernig komið er. Þá vil ég fyrst nefna efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma, sem menn verða auðvitað að hafa til hliðsjónar þegar menn meta ákvarðanir á liðnum tíma. Þær eru teknar við einhver tiltekin skilyrði og síðan hafa stjórnvöld breytt skilyrðum eða forsendum lánveitinga. Stundum hafa utanaðkomandi áhrif breytt þessum skilyrðum þannig að endurgreiðslan nær ekki fram að ganga þannig að menn geta ekki staðið í skilum. Þetta þarf að draga fram. Hver hafa verið áhrifin, utanaðkomandi, sem hafa átt sinn þátt í þessu? Þar er rétt að nefna t.d. þróun á verðlagi sjávarafurða. Í öðru lagi má nefna, sem við getum kannski kallað utanaðkomandi skilyrði, það magn sem veiða má af þorski á hverju ári. Það hefur haft veruleg áhrif á getu fyrirtækja í sjávarútvegi til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem þau tóku við önnur skilyrði. Fyrirtæki sem mátti veiða kannski 5 þúsund tonn af þorski var með skuldbindingar sem það gat staðið við miðað við þá veltu. Síðan er niðurskurður á afla og við skulum ekkert þræta um það að hann hafi verið réttmætur eða óréttmætur, við skulum bara ganga út frá því að hann hafi verið og það ekki umþrætunarefni, að þá hefur ekki verið brugðist við af hálfu stjórnvalda, sem taka þessa ákvörðun, þannig að fyrirtæki gætu lagað skuldbindingar sínar að þessum nýju skilyrðum. Því þegar menn eru komnir niður í, þar sem verst er, einn þriðja af þeim aflaheimildum sem þeir höfðu, þ.e. um 70% samdrátt sem þýðir líka um 60--70% samdrátt af tekjum, þá verða menn að hafa svigrúm til að breyta endurgreiðslu á lánum sem þeir hafa tekið og annað slíkt til þess að geta staðið í skilum.
    Ég hef þá skoðun að bara þessi þáttur einn, ákvörðun um hámarksafla á þorski, hafi haft töluverð áhrif og hann skýri einhverjar fjárhæðir sem hafa tapast af því að menn tóku ekki ákvarðanir til að fylgja hinni eftir, til að gera mönnum kleift að lifa með þeirri ákvörðun að takmarka sóknina í þorskinn. Þar bera auðvitað stjórnvöld höfuðábyrgð, en ég held að það verði líka að kalla til ábyrgðar stjórnendur innlánsstofnana, hvort sem það eru bankar eða fjárfestingarlánasjóðir. Og það væri mjög fróðlegt og verðugt verkefni að fara yfir það að draga þennan þátt sérstaklega fram.
    Aðrir þættir sem stjórnvöld hafa haft áhrif á og breytt mönnum til óhagræðis í útflutningsatvinnugreinunum er fastgengisstefnan, sem rekin var hér á árunum 1986 og 1987. Mér finnst hún sérstakt rannsóknarefni. Hver voru áhrif þeirrar stefnu á fjárhagsstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi? Hvaða afleiðingar hafði þessi fastgengisstefna á stöðu fyrirtækja sem fyrst og fremst eru á landsbyggðinni? Við getum í raun og veru endurorðað spurninguna: Hvaða áhrif hafði þessi stefna forustumanns og formanns Sjálfstfl. á stöðu landsbyggðarinnar? Því það er það sem gerðist að Sjálfstfl., sem var þá búinn að taka upp tiltekna efnahagsstefnu sem hann fylgir enn, var að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu með einstökum ákvörðunum eins og fastgengisstefnunni og eins og þeirri stefnu tveimur árum fyrr, að gefa vexti frjálsa þegar þeir fóru úr 3% upp í 10 bara á nokkrum mánuðum. Það eru gífurlegar fjárhæðir sem voru teknar af skuldurum á þeim tíma með þeirri ákvörðun og það kom illa við sjávarútveginn, svo að ég nefni eina atvinnugrein. Það er verðugt rannsóknarefni að athuga hver voru áhrifin af þessum pólitísku ákvörðunum stjórnvalda á fjárhagsstöðu fyrirtækja sem síðar leiddi til þess að sum þeirra fóru á höfuðið og urðu gjaldþrota.
    Ég held og er eiginlega sannfærður um það að í allnokkrum tilvikum hafi mörg stór sjávarútvegsfyrirtæki hreinlega hrunið vegna þessarar stefnu, vegna fastgengisstefnunnar og vegna hinnar háu vaxtastefnu, sem fyrrv. formaður Sjálfstfl. og sá flokkur ber höfuðábyrgð á að hafa framfylgt. Við getum sagt sem svo að þetta væri rannsókn á áhrifum markaðskerfisins sem menn voru að innleiða í íslensku atvinnulífi. Ég tel að menn eigi að rannsaka þetta og þeir eigi að styðja það, sem eru fylgjandi markaðshagkerfinu, að þetta verði rannsakað. Því að þeir eins og aðrir, þeir sem ekki eru gagnrýnendur, þeir sem ekki eru fylgjendur markaðshagkerfisins, ættu báðir að sameinast um að láta rannsaka áhrifin af þessu, hvernig markaðshagkerfið var innleitt hér á þessum árum.
    Ég hef aldrei talið mig vera í þeim hópi sem styðja óheft markaðskerfi í efnahagsmálum og tel mig hafa fengið sannanir fyrir því í þeirri stefnu sem rekin hefur verið með fastgenginu og háu vöxtunum að það hefur í för með sér slæmar afleiðingar, eins og sjá má í gjaldþroti ýmissa sjávarútvegsfyrirtækja. Við höfum séð hvað flest dæmi um slíkt á Vestfjörðum og ég held að það væri full ástæða til að rannsaka að hve miklu leyti þessir þættir hafa áhrif á útlánatöpin sem síðar urðu.
    Ég vil líka í þriðja lagi nefna kvótakerfið sjálft, sem ég hef nú reyndar nefnt að hluta til með því að nefna áhrif þorskskerðingar á útlánatöp síðar. Að hve miklu leyti er kvótakerfið orsök útlánatapa og að hve miklu leyti er kvótakerfið tekið upp sem afleiðing af því að háu vextirnir og fasta gengið eru búin að skuldsetja sjávarútvegsfyrirtækin það mikið að bankarnir stóðu frammi fyrir því að eiga ekki veð fyrir skuldunum og knúðu á um það að fiskveiðiheimildirnar yrðu veðsetjanleg eign? Að hve miklu leyti hafa þessi tvö atriði leitt til þess að menn knúðu hér kvótakerfið í gegn, séreignakerfi í sjávarútvegi, sem að mati hæstv. sjútvrh. er búið að festa í sessi hér fyrir fullt og fast? Sjálfstfl. andmælir á engan hátt þessum skoðunum forustumanns síns í sjávarútvegi þannig að það er ljóst að Sjálfstfl. er búinn að taka upp séreignakerfi í stjórn fiskveiða og það er rannsóknarefni að hve miklu leyti það hefur orðið til sem afleiðing af þessum ákvörðunum stjórnvalda sem ég nefndi og að hve miklu leyti það er orsök. Þetta verða menn auðvitað að rannsaka, því menn eiga ekki að taka upp svona kerfi eins og kvótakerfið, fara úr sameignarskipulagi yfir í séreignafyrirkomulag í sjávarútvegi, nema hafa gert sér sæmilega grein fyrir því hvert menn eru að fara og til hvers það leiðir.
    Í fjórða lagi tel ég rétt að það eigi að taka upp í þessari athugun eða rannsókn, sem við getum kallað, áhrif þess að bankastjórar eru í miklum mæli skipaðir pólitískt. Þar er ég sammála flm. og tel, svo að ég segi mína skoðun, að það hafi haft slæm áhrif. Ég tel að það hafi ekki verið heillavænlegt fyrir innlánsstofnanirnar og Byggðastofnun að þær skuli vera svo pólitískar sem raun ber vitni og get nefnt dæmi um pólitískar lánveitingar sem hafa svo farið hörmulega, þó að ég láti það nú ógert í þessari umræðu. Ég vil þó nefna að t.d. höfðu yfirlýsingar Sverris Hermannssonar, bankastjóra Landsbankans, afleit áhrif. Hann lýsti því yfir á sínum tíma að Einar Guðfinnson hf. í Bolungarvík mundi aldrei fara á hausinn. Á grundvelli þeirrar yfirlýsingar landsbankastjórans ákvað bæjarstjórnin að lána 50 millj. í fyrirtækið, sem þurfti svo að afskrifa nánast umsvifalaust því að það var engin staða í fyrirtækinu sem lánað var til, þannig að það var ekki hægt að halda því áfram gangandi, þó að menn hefðu viljað. Auðvitað átti Landsbankinn ekki að vera að blekkja menn til þess að lána fé í fyrirtæki sem var ekki við bjargandi. Ég tel að yfirlýsingar Sverris Hermannssonar hafi þar vegið mjög þungt og raunar ráðið úrslitum um það að menn réðust í þessa lánveitingu og hann beri allverulega ábyrgð á henni.
    Þetta var auðvitað pólitísk yfirlýsing og þarna ruglaði bankastjórinn saman hlutverki sínu sem gæslumaður almannafjár og sjálfstæðismaður og fyrrv. alþm. og ráðherra fyrir Sjálfstfl., og ég held að það hafi ekki verið neinum til gangs og gæti nefnt fleiri dæmi honum viðvíkjandi en læt það ógert.
    Það eru auðvitað fleiri en hann sem hefur verið raðað inn í bankana og Seðlabankann sem pólitískir fulltrúar, þannig að það er ekki um hann einan sem ég er að tala en hann er skýrasta dæmið að mínu viti. Ég tel að Sjálfstfl. og Framsfl. beri verulega ábyrgð á þessum óförum í útlánatöpum vegna þess að þessar pólitísku mannaráðningar í bönkunum gerðu það að verkum að bankarnir hafa fram til þessa um of verið hallir undir hið pólitíska vald. Menn hafa skilið það hvert hlutverk þeirra væri og um of hagað sér eftir því, þó að það sé sem betur fer mjög að breytast og ég tel að bankarnir hafi á síðustu árum lagt sig fram um það að reyna að losa sig undan þessu pólitíska valdi þessara tveggja stóru stjórnmálaflokka, sem hafa haft tögl og hagldir í pólitíkinni undanfarna áratugi.
    Ég mundi því telja nauðsynlegt að menn rannsökuðu áhrif pólitískt skipaðra bankastjóra á lánveitingar innlánsstofnana og tel raunar að það væri þörf á því þó fyrr hefði verið. Og mér líkar það ekki að stjórnmálaflokkar í lýðræðisríki skuli umgangast innlánsstofnanir sem pólitísk elliheimili fyrir stjórnmálamenn sem þeir þurfa að leggja af sér og rýma fyrir öðrum, hvort sem það er úr ráðherrastól eða þingmannssæti.
    Virðulegi forseti. Ég get svo sem rakið frekar skoðanir mínar í þessu máli, en ég held að ég hafi komið til skila helstu atriðum sem mér finnst að menn þurfi að hafa til hliðsjónar við athugun á útlánatöpum og eins því að ég tel að menn eigi að rýmka hlutverk nefndarinnar, eins og ég gat um varðandi breytingar á 2. gr. En þá vil ég taka undir athugasemdir hv. þm. Einars Guðfinnssonar um skipan nefndarinnar. Ég er ekki viss um að það sé rétt skipan á henni eins og þarna er lagt til. Ég hef enga sérstaka sannfæringu fyrir því að stofnun eins og Háskóli Íslands, Hæstiréttur eða Ríkisendurskoðun sé öðrum fremur þess bær að tilnefna menn í rannsókn af þessum toga. Ég held að menn verði einfaldlega að hafa þetta sem nefnd kosna af Alþingi og þetta sé einfaldlega pólitísk nefnd. Ég sé ekki hvernig menn geti fundið annað form á því en að Alþingi kannist við það að hafa komið króganum á lappirnar og þingflokkarnir skipi sjálfir nefndarmenn, og ég held að það væri eðlilegast að það væru bein tengsl á milli þingflokkanna og nefndarinnar, enda væntanlega markmið nefndarstarfsins að hafa áhrif á þingflokkana og lagasetningu í framhaldinu, þá væntanlega í takt við niðurstöður nefndarinnar. Nefndarmenn mundu svo auðvitað sækja sér sérfræðiþekkingu eftir föngum til til þess bærra manna.
    Að öðru leyti tel ég þetta hið besta þingmál og mundi fagna því ef það tækist samstaða hér á þingi um að afgreiða það sem lög í svipuðu formi og það er lagt fram, þó einhverjar breytingar verði og þá einkum í takt við það sem ég hef verið að nefna.