Fullgilding GATT-samkomulagsins

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:41:42 (1864)


[13:41]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú ofmælt hjá hv. þm. að segja að málið sé í fullkomnum ólestri. Sannleikurinn er sá að það hefur verið lögð í þetta mikil vinna nú seinustu mánuði og að því er varðar tæknilega hlið þess máls þá er hún allvel á veg komin. Ég hygg þess vegna að engan veginn sé útilokað og alls ekki hægt að slá því föstu að við gætum ekki staðið við okkar hlut, þ.e. staðfest bæði þáltill. og þær lagabreytingar sem hér um ræðir á þeim tíma sem við höfum til stefnu. Hitt er hins vegar alveg nákvæmlega rétt að sú óvissa sem ríkir um málið á alþjóðavettvangi, ekki síst innan Bandaríkjanna, getur þýtt að málið ekki aðeins frestist um hálft ár. eins og menn gerðu ráð fyrir, heldur stefnt þessu mikla alþjóðlega samkomulagi fullkomlega í tvísýnu þannig að það jafnvel ónýtist sem væri náttúrlega meiri háttar áfall fyrir heimsbyggðina jafnmikið og í húfi er.