Fullgilding GATT-samkomulagsins

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:42:49 (1865)


[13:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. hreinskilnina og fyrir að staðfesta það sem ég sagði að auðvitað er staða þessa máls alveg ótrúleg af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. utanrrh. hafði um það þau orð sjálfur að það væri alls ekki útilokað að við gætum að okkar leyti haft undirbúning undir gildistöku samningsins tilbúinn á tilskildum tíma. Með öðrum orðum fólst í svari hæstv. utanrrh. að það væru orðnar afar litlar líkur á því að þessi mál yrðu klár heima fyrir þó svo færi að samningurinn annars staðar og af hálfu erlendra aðila tæki gildi um áramót. Þetta er alveg fráleitt, líka í ljósi þess að það liggur fyrir heiftarlegur ágreiningur milli stjórnarflokkanna um frágang þessa máls innan stjórnkerfisins, forræði þess að hluta til og frágang í löggjöf. Hér er það ósköp einfaldlega staðfest að klofningur ríkisstjórnarinnar og illdeilur stjórnarflokkanna um þetta mál valda því að undirbúningur þess af Íslands hálfu er í molum. Það er ekki eitt heldur allt sem er í vaskinum hjá þessari ríkisstjórn þegar að stefnumótun og framkvæmd utanríkisstefnunnar kemur. Þetta er hörmuleg niðurstaða, hæstv. forseti.