Málefni Iðnlánasjóðs

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:45:19 (1867)

[13:45]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það er hæstv. iðn.- og viðskrh. sem mig langar að ræða við. Í fyrravetur lagði sá er hér stendur fram litla fyrirspurn til iðn.- og viðskrh. og óskaði eftir upplýsingum um til hverra Iðnlánasjóður veitti styrki af iðnlánasjóðsgjaldi 1990--1992. Iðnaðurinn um allt land er skattlagður og ýmsir óttast að styrkir til samkeppnisaðila skekki samkeppni milli keppinauta. Því beri að gefa upp í ársreikningum hvaða fyrirtæki hlutu styrki. Svarið sem hæstv. iðn.- og viðskrh. bar fram á borð Alþingis við fsp. var á þá leið að ekki væri hægt að upplýsa um fyrirgreiðslur sjóðsins til einstakra fyrirtækja og einstaklinga og bar þar fyrir sig lög. Nú heyrði ég í haust frétt í Ríkisútvarpinu sem mér þótti sérkennileg. Hún var á þá leið að umboðsmanni Alþingis hefði borist kvörtun vegna þess að iðn.- og viðskrn. hefur neitað að láta af hendi upplýsingar og skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði fyrir ráðuneytið um málefni Iðnlánasjóðs. Kröfuhafi í þrotabúi Byggingariðjunnar hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis yfir neitun iðn.- og viðskrn. á því að afhenda upplýsingar sem hann telur að geti ráðið úrslitum við mat á því hvort þrotabúið eigi bótarétt á hendur Iðnlánasjóði.

    Í stuttu máli, hæstv. forseti, málið snýst um þessa skýrslu sem iðn.- og viðskrn. sá ástæðu til að láta Ríkisendurskoðun gera um málefni Iðnlánasjóðs í kjölfar klögumála. M.a. um hugsanleg brot sjóðsins gegn samkeppnislögum þegar hann stofnaði félag til að reka þrotabú Óss-húseininga fyrir einu og hálfu ári eða svo. Ég vil spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. út í þessi tvö atriði.