Greiðsla fyrir vottorð til Tryggingastofnunar

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:51:27 (1873)

[13:51]
     Ingibjörg Pálmadóttir :

    Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. heilbrrh. um ný gjöld sem lögð eru á sjúklinga vegna útgáfu vottorða til Tryggingastofnunar. Reglugerðin tók gildi 1. okt. sl. Ég er hér með dæmi um þessa nýju skattlagningu. Það er húsmóðir sem fær sjúkradagpeninga, 263 kr. og 10 aura á dag, eða 7.800 kr. á mánuði. Til þess að fá þessa sjúkradagpeninga greidda fer hún til læknis, sem kostar 600 kr., fær vottorð fyrir sjúkradagpeningana, kostar 600 kr., hún þarf vottorð til sjúkraþjálfara, það kostar 600 kr., hún þarf vottorð vegna hjálpartækja, sem að kostar líka 600 kr. Alls kostar þetta 2.400 kr. af 7.800 kr. sjúkradagpeningum.
    Nú spyr ég hæstv. heilbrrh.: Var þessi nýi vottorðaskattur á sjúklinga frá 1. okt. sl. óviljaverk sem ætlunin er að endurskoða eða telur hæstv. heilbrrh. þennan skatt sanngjarnan?