Greiðsla fyrir vottorð til Tryggingastofnunar

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:52:53 (1874)


[13:52]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki um að ræða skatt vegna þess að andvirði þessara greiðslna rennur ekki til ríkissjóðs heldur er þetta greiðsla fyrir þjónustu þeirra lækna sem skrifa umrædd vottorð. Þeim hefur þótt hlýða að óska eftir því að þeir fengju sérstakar greiðslur fyrir það. Í sumum tilvikum greiðir ríkið. Það er ef ríkið kallar eftir slíkum vottorðum. Í sumum tilvikum greiðir atvinnuveitandi, þ.e. fyrir vottorð sem er beint til atvinnuveitanda. Í sumum tilvikum greiðir sjúklingur sjálfur, þ.e. fyrst og fremst í þeim tilvikum að sjúklingur öðlist sérstakan rétt vegna þeirra vottorða sem hann fær fyrir viðbótargreiðslum hins opinbera. Það er það sem þarna er um að ræða. Þessar greiðslur renna til viðkomandi læknis en ekki til hins opinbera. Um það má deila hvort þetta sé eðlileg eða óeðlileg verðlagning en þetta er sú niðurstaða sem menn hafa komist að í samningum við lækna, að þessi þjónusta skuli kosta. Hvort þetta er hins vegar æskilegar eða eðlilegar greiðslur geta menn endalaust deilt um. En með öðrum orðum eru þetta þær greiðslur sem læknum eru greiddar fyrir vottorð sem veita viðkomandi aðilum aðgang að mun rýmri greiðslum úr opinberum sjóðum vegna þeirra þarfa sem vottorðin lýsa.