Biðlistar á sjúkrahúsum eftir smáaðgerðum

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:02:08 (1881)


[14:02]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þó hann svaraði ekki öllum mínum spurningum og það er út af fyrir sig fagnaðarefni ef biðlistar hafa styst nokkuð frá því sem þeir voru lengstir árið 1992 eftir þær árásaraðgerðir hæstv. núv. ríkisstjórnar á heilbrigðiskerfið en þá fjölgaði á biðlistum úr 4.100 í 4.600 eða um 12% á sjúkrahúsunum, hefur nú nokkuð styst aftur og er núna 4.300 samkvæmt nýlegri úttekt landlæknisembættisins. Þannig að ég veit ekki hvort ráðherra getur hrósað sér mikið af þessu.
    En hitt er gott til að vita ef hann er nokkuð ánægður með þetta þó ég hyggi að þeir sem eiga við það að búa að bíða eftir tiltölulega litlum aðgerðum og ég var fyrst og fremst að spyrja um þær, ekki heildarástandið á sjúkrahúsunum í landinu, það verður vonandi betri tími til að ræða það nánar við hæstv. ráðherra heldur en hér í óundirbúnum fyrirspurnum. Ég er algjörlega ósammála honum um það að þær hugmyndir sem nú er verið að vinna að eða þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um samstarf sjúkrahúsanna í Reykjavík muni leiða til þess að leysa hér stóran vanda. Þar held ég að hæstv. ráðherra sé því miður á villigötum.