Biðlistar á sjúkrahúsum eftir smáaðgerðum

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:03:34 (1882)


[14:03]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil líka upplýsa að á spítölum utan Reykjavíkur, m.a. á spítala í kjördæmi og að ég hygg heimabyggð hv. þm., hefur aðgerðum fjölgað verulega. Sama máli gegnir um fjöldamarga aðra spítala úti á landi. Á árinu 1994 hafa þeir verið að fjölga verulega aðgerðum sínum í kjölfar skýrslu um sjúkrahúsmál sem tekin var saman í heilbrrn. þar sem reynt var að varpa ljósi yfir þær aðgerðir sem gerðar væru á spítölum hringinn í kringum landið. Þannig að það er ekki bara í Reykjavík sem aðgerðum hefur stórfjölgað heldur einnig úti á landi. Það hefur leitt til þess að biðlistar hafa styst. Biðlistar hafa aldrei verið styttri en nú, sérstaklega í hinum stóru og meiri aðgerðum eins og hjartaaðgerðum. Þar sem við erum núna að gera 300 aðgerðir á ári sem miðað við fólksfjölda eru fleiri aðgerðir en gerðar eru í nokkru öðru Evrópulandi. Biðlisti eftir hjartaaðgerðum hefur aldrei verið styttri en nú, (Forseti hringir.) auk þess sem það er verið að gera fjölmargar aðrar aðgerðir svo sem spengingar á hrygg og fleira sem áður voru ekki gerðar hér á landi (Forseti hringir.) heldur varð að fara með sjúklinga til útlanda til þess að þær yrðu gerðar. Þannig að það liggur alveg fyrir að þrátt fyrir (Forseti hringir.) mikinn niðurskurð í sjúkrahúsakerfinu hafa afköst þess stóraukist og aldrei verið meiri en nú.