Biðlistar á sjúkrahúsum eftir smáaðgerðum

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:04:58 (1883)


[14:04]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það er því miður rangt hjá hæstv. heilbrrh. að biðlistar hafi aldrei verið styttri og það er dálítið merkilegt ef aðgerðum er svo að fjölga á öllum stofnunum, öllum sjúkrahúsum í landinu, að biðlistarnir skuli nú þrátt fyrir það sem ég las upp áðan og hef upp úr skýrslu frá landlækni vera lengri en þeir voru t.d. 1991 þannig að eitthvað er nú brogað við systemið eða þá að við erum að gera einhverjar aðrar aðgerðir eða með öðrum hætti heldur en áður hefur verið gert.
    Ég fagna því og mér er fullkunnugt um það að við erum nú að gera ýmsar mjög mikilvægar aðgerðir sem áður voru gerðar erlendis og við þurftum auðvitað að kosta með okkar tryggingakerfi. Það er ekki eins og það hafi verið hreinn sparnaður. Við greiddum auðvitað með ærnum kostnaði fyrir aðgerðir sem gerðar voru erlendis. En að geta nú gert þær hér heima er vissulega fagnaðarefni en það kostaði sína fjármuni þó við höfum fært þá úr einum farvegi, frá Tryggingastofnun, yfir í annan, þ.e. á sjúkrahúsin. (Forseti hringir.)
    Ég mun tímans vegna leyfa mér að ræða þetta nánar við hæstv. ráðherra þegar hér verður rædd vonandi fljótlega till. til þál. um hlutverk minni sjúkrahúsa og ég held (Forseti hringir.) að þar sé einmitt einn möguleikinn til þess að leysa þau vandamál sem nú er við að glíma, biðlistana við hinar smærri aðgerðir sem hér er verið að tala um.