Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:40:38 (1894)


[14:40]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir hans innlegg í umræðuna. Hann var í rauninni að endurtaka það sem hann sagði í gær. Hann vill fara aðra leið að þessu máli. Ég ítreka að ég er svo sannarlega tilbúin til að skoða það og mér fannst margt mjög athyglisvert koma fram hér í umræðunni í gær, bæði hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, um það að skoða allt þetta umhverfi sem fyrirtækin og almenningur lifir í og að kanna hvar orsökin liggur. Hvernig er okkar fjármálakerfi? Eins og hv. þm. er að benda á þá kann það ástand sem nú ríkir að vera, eins og hann orðaði það, áskrift á útlánatöp framtíðarinnar eða boða útlánatöp framtíðarinnar þegar kjörin eru þannig að enginn ræður við þau. Hvort orsökin er nú sú fákeppni sem hér ríkir eða hreinlega þær reglur sem gilda um bankana og þeirra frelsi. Það þyrfti að skoða það mál.
    En hvernig sem við nálgumst þetta þá held ég að niðurstaða okkar allra sem höfum tekið þátt í þessari umræðu sé sú að hér sé um atriði að ræða sem virkilega þarf að kanna. Okkur sem löggjafinn og sem aðhaldsaðili að framkvæmdarvaldinu, sem fer m.a. með yfirstjórn ríkisbankana, ber skylda til að taka á þessu. Eigum við þá ekki bara að sameinast um að finna leið til að ná utan um þetta mál sem bæði tekur til umhverfisins og þess hvernig staðið hefur verið að útlánum í banka- og sjóðakerfinu á undanförnum árum?