Umferðaröryggismál

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:07:32 (1897)


[15:07]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessar undirtektir, byrja síðan á því að leiðrétta mismæli sem mér hefur sennilega orðið á áðan. Ég hef sennilega sagt að ég legði til að tillögunni yrði vísað til samgn. en þar á að sjálfsögðu við allshn. því að hér er um dómsmál að ræða þar sem dómsmrh. er auðvitað ætlað forræði, samanber meðferð hans eða hlutverk hans á sviði umferðaröryggismála.
    Ég þakka þær undirtektir sem tillagan hefur hér fengið og er í flestum greinum sammála hv. síðasta ræðumanni þar um. Það er vissulega rétt og ég tók það reyndar fram í mínu máli, að ýmislegt hefur verið gert til þess að bæta hér úr í þessum málum, bæði á sviði löggjafarinnar og einnig í reynd í framkvæmd af hálfu ýmissa aðila sem með mál á þessu sviði fara, svo sem Vegagerðin og ég nefndi. Við getum óumdeilanlega held ég sagt nú að það hafi verið rétt ákvörðun og mikið framfaraskref til að mynda að lögleiða ökuljós á sínum tíma og lögleiða notkun bílbelta og það er auðvitað spurning hvort ekki blasir við nú orðið að það sé tímabært og þó fyrr hefði verið jafnvel, að taka ákveðin skref í viðbót í þeim efnum, til að mynda að lögleiða notkun bílbelta í rútum og lögleiða notkun hjálma á reiðhjólum og fleira af því tagi. Ég geri ráð fyrir því að í stefnumótun og umferðaröryggisáætlun eins og hér væri gerð og er lögð til, þá kæmu slíkir hlutir fram eða sem fylgifiskar í frumvörpum til breytinga á viðkomandi lögum.

    Hv. þm. nefndi fróðlegar tölur um kostnað vegna slysa og umhverfisslysa upp úr blaðagreinum eftir yfirlækni á Borgarspítala og það er allt rétt sem um það segir. Það liggur fyrir að hinn beini kostnaður, hin miklu fjárútlát eru auðvitað gífurleg sem þetta kostar samfélagið, milljarðar á milljarða ofan á hverju ári og til viðbótar bætast svo þær mannlegu hörmungar og þau óbætanlegu sár og sá óbætanlegi skaði sem fjöldi einstaklinga verður fyrir á hverju ári og aldrei verður auðvitað mældur.
    Þá er það alveg hárrétt sem hv. þm. nefndi og ég viðurkenni, þó að það kæmi ekki sérstaklega fram í mínu máli, að þegar ég er að tala um hina óheyrilegu háu slysatíðni yngstu ökumannanna þá eru það að miklum meiri hluta til piltar, það er rétt, og einhvers staðar liggja fyrir kyngreindar upplýsingar um það, ég man ekki hvort það er í ársskýrslum Umferðarráðs. Ég tek það fram að ég birti hér aðeins ágrip úr síðustu ársskýrslu ásamt töflum sem ég vann sjálfur upp úr slysaskýrslum Umferðarráðs á árunum 1986--1991 þegar ég flutti fyrir tveimur árum síðan með hv. þm. og hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur frv. til laga um breytingu á umferðarlögum. Þessi gögn gefa auðvitað aðeins takmarkaða mynd af því sem hér á við og ég vísa mönnum í til að mynda síðustu ársskýrslu Umferðarráðs sem er allítarleg og hefur farið vaxandi ár frá ári, þessar ársskýrslur, og veita orðið mjög miklar upplýsingar um þessi mál.
    Það er sjálfsagt það sem þarna er á ferðinni, eins og reyndar stendur í kennslubókum og þeir vita sem hafa numið hafa uppeldis- og kennslufræði, að á þessu æviskeiði er karlkynið, eins og nóbelsskáldið hefði eflaust orðað það, reyndar greindi hann þetta aðallega í mannkynið og kvenkynið, það er á eftir á þroskabrautinni. En ýmislegt fleira sem getur komið til úr umhverfisaðstæðum og er óháð þroska getur þarna líka haft mikil áhrif, eins og einfaldlega að piltar séu meira á ferðinni, taki fyrr bílpróf og keyri meira og e.t.v. glannalegar heldur en aðrir.
    Þá komum við að því hvort það sé ekki niðurstaðan af þessum gífurlegu slysum sérstaklega á fyrsta aldursárinu að bílprófsaldurinn sé of lágur og það væri vænleg aðgerð í þessu skyni að hækka hann. Ég býst við því að það liggi nokkuð á borðinu að með því mundi nást einhver árangur. Að vísu má spyrja hvort þetta flyttist þá ekki einfaldlega allt til um eitt ár eða að miklu leyti þannig að í staðinn fengjum við að 18--19 ára aldurinn yrði þá langhæstur, ef við t.d. hugsum okkur að aldursmarkið yrði fært upp um eitt ár. (Gripið fram í.) Akkúrat, hv. þm. Það er hins vegar von að menn væru að þroskast það hratt á þessum tíma að þannig lagað séð mundu menn vera orðnir betur undir það búnir og þroskaðri til þess að fá þessi réttindi 18 ára heldur en 17. Það eru vissulega til bæði lægri aldursmörk, eins og hv. þm. nefndi, en einnig hærri og í nokkrum löndum og ef ég man rétt einnig í einhverjum fylkja Bandaríkjanna, eru hærri aldursmörk, 18 ár og jafnvel hærri í einstökum tilvikum.
    Það sem ég hef aðallega staldrað við og var í raun og veru efni frv. sem hér hefur verið nefnt er að fara þá leið að þessu marki að halda hinu formlega aldursmarki óbreyttu, þ.e. við 17 ár, en búa til sérstakan reynslutíma fyrsta hálfa árið sem menn hafa réttindin, sem þýðir í reynd að menn mundu fá takmörkuð ökuréttindi á fyrsta hálfa árinu og í raun væru menn ekki með fullgild og endanleg ökuréttindi fyrr en 17 og hálfs árs. Þetta felur líka í sér þá hugsun að mikilvægt sé að menn fái þjálfun við akstur á fyrsta tímabilinu undir leiðsögn þannig að menn verði betri ökumenn. Ég held að það sé út af fyrir sig nokkuð ljóst að fyrsta hálfa árið eða svo verður alltaf hættulegt, jafnvel þó menn væru orðnir 18, 19 eða 20 ára, einfaldlega vegna þess að á því skeiði eru menn að fá þessa þjálfun sem við öll vitum að er auðvitað mikilvæg fyrir þá sem stjórna ökutækjum.
    Ég held að við verðum líka að horfast í augu við það að það yrði erfið aðgerð og auðvitað óvinsæl á Íslandi að hækka þessi mörk. Íslendingar eru tiltölulega háðir samgöngum á landi og búa í stóru og strjálbýlu landi þannig að það mundi auðvitað koma mjög mikið við í samfélaginu ef þessi mörk yrðu hækkuð. Það ber ekki að skilja mig svo að ég telji að menn eigi að útiloka þann möguleika og auðvitað verða menn að hafa kjark til þess að taka þær ákvarðanir í þessum efnum sem menn meta að séu samfélaginu fyrir bestu og einnig þessu unga fólki. Því það er nú einu sinni hið erfiða hlutskipti löggjafans að reyna að veita leiðsögn í þessum efnum og auðvitað verða menn hér í þessari stofnun að þora að taka ákvarðanir sem koma við úti í samfélaginu og eru ekki endilega vinsælar af öllum sem fyrir þeim verða ef menn hafa sannfæringu fyrir því og rökstuddar upplýsingar um að þær yrðu til góðs og þær væru réttlætanlegar frá sjónarhóli heildarhagsmuna samfélagsins eins og í þessu tilviki. En ég mundi telja að vænlegt væri til að mynda að um þessa hluti yrði fjallað af þeim sem undirbyggju aðgerðaáætlun á þessu sviði, eins og hér er verið að leggja til.
    Ég held líka að þegar maður ber útgáfu ökuréttindanna saman við ýmislegt annað eins og hv. þm. t.d. nefndi réttindi flugmanna, þá vekur það óneitanlega nokkra athygli að ökuréttindin koma í einu lagi, í einu skrefi. Það er mjög stórt stökk frá því að mega ekki einu sinni setjast undir stýri í bíl sem er í gangi og yfir í hitt, að fá bara á einum tilteknum degi full og endanleg réttindi til að stjórna því tæki hvar sem er við hvaða aðstæður sem er.
    Hér á landi er ekki einu sinni um að ræða neina takmörkun miðað við vetrarakstur eða annað því um líkt. Á einum einasta degi geta menn þar af leiðandi fengið rétt til þess að aka stórri bifreið, jafnvel fullri af jafnöldrum sínum út í umferðina um verslunarmannahelgi eða hvenær sem það er, þess vegna að skella sér óþjálfaðir út í mestu umferðarhelgi ársins.
    Ef við berum þetta saman við flugréttindi þá koma þau í mörgum skrefum. Fyrst fá menn réttindi til að stjórna flugvél við hliðina á flugkennara, síðan fá menn réttindi til að fljúga sjálfum sér, sólópróf, síðan fá menn svokallað einkaflugmannspróf sem er þriðja skrefið. Þá fá menn réttindi til þess að fljúga minni vélum með farþegum innan tiltekinna takmarka. Í fjórða skrefi koma svo atvinnuréttindi á tækið. Þar til viðbótar er síðan próf eða hæfnisvottorð á hverja flugvélartegund fyrir sig. Í raun og veru eru þetta fjögur, fimm aðskilin skref sem byggja upp feril flugmanns þangað til hann hefur full og endanleg réttindi. Auðvitað er ekki verið að bera saman sambærilega hluti að því leyti til að þegar atvinnuflugmaður hefur orðið full réttindi á stærstu flugvélar þá ber hann ábyrgð á lífi miklu fleiri en átt getur við í bifreið. Þó er spurning hvort það er ekki í raun stigsmunur en ekki eðlis á því og hinu að 17 ára ökumaður getur fyllt bifreið af farþegum eins og menn vita.
    Ég held að einmitt samanburður við réttindi annarra aðila sem stjórna tækjum, hvort sem það eru flugmenn eða skipstjórnarréttindi eða annað því um líkt sem koma í skrefum með aukinni menntun og/eða þjálfun, gefi alveg tilefni til að hugleiða hvort það sé ekki umhugsunarefni að ökuréttindin koma svona í einu skrefi.
    Auðvitað er margt, margt fleira sem mætti nefna eins og til að mynda sektir og viðurlög og eftirlit með mönnum. Þar er viss þróun í gangi eins og í gegnum afbrotaskráningu eða hvað það nú er. Nú mun vera komin í gang meiri skráning á því ef mönnum verður á eða komast í kast við löggæsluna eða aðra slíka vegna þess að þeir hegða sér ekki rétt í umferðinni og eitthvað er orðið um það að menn verði að sæta viðurlögum eða séu teknir tali a.m.k. vegna slíks þegar sú skrá safnast upp. En vissulega skipta líka sektir og viðurlög máli þó að nálgunin í gegnum fræðslu og forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir sé að sjálfsögðu æskilegri og væntanlega líka árangursríkari þó að sektunum verði að sjálfsögðu ekki sleppt.
    Það sem að lokum stendur alveg upp úr í þessum málum, hæstv. forseti, er þetta ástand sem við megum ekki sofna á verðinum gagnvart, að þessi slysatíðni í yngstu aldurshópunum er þvílíkur harmleikur að það tekur engu tali. Við verðum að gera allt sem við getum til þess að sporna gegn því sorglega mannfalli sem þarna á sér stað. Það kemur mjög skýrt fram í súluritum sem fylgja með tillögunni að þetta er slíkur ógnarlegur toppur sem er í yngstu aldurshópunum að það hlýtur að vera hægt að ná þar einhverjum árangri. Ég held við megum ekki berjast baráttulaust gegn því. Nú er engin ástæða til að ætla ef allt væri sem skyldi að unga fólkið gæti ekki verið prýðilega fært og jafnvel líkamlega og andlega færara en þeir sem í eldri árgöngunum eru til þess að stjórna ökutæki þannig að vel færi en þarna er greinilega við aðra þætti að eiga en þroskann og líkamlega hæfni eina saman. Væntanlega er það reynsluleysi og aðrar aðstæður, e.t.v. að hluta til umhverfislægar sem valda því að staðan er eins og raun ber vitni.
    Ég hvet eindregið til þess að reynt verði að gera um þetta áætlun af þessu tagi sem tillagan fjallar um og hrinda henni í framkvæmd. Ég er alveg sannfærður um að þeim fjármunum og þeirri orku sem í það færi að vinna slíkt starf væri vel varið og það væri góð gjöf til upprennandi Íslendinga, þeirra sem eru væntanlegir út í umferðina á næstu árum að taka á þessum málum með þessum hætti.