Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:40:22 (1901)


[15:40]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrir viku síðan áttum við þingmenn hér nokkuð langar umræður og gagngjörar við þáv. starfandi ráðherra fjármála, hv. sjútvrh. sem gegndi hlutverki fjmrh. í forföllum núv. fjmrh. Í þeim umræðum kom í ljós að allir flokkar studdu að þetta mál yrði til lykta leitt sem fyrst. Hver einasti maður sem til máls tók vildi að því styðja. Það er því einhugur hér í Alþingi, hæstv. ráðherrar. En það virðist ekki vera eins mikill einhugur í ríkisstjórninni. Heilbrrh. stendur hér algjörlega bláeygður og saklaus og þetta er ekki honum að kenna og það liggur við að þetta komi honum ekki við að öðru leyti en því að hann óski þess úr fjarlægð að sjúkraliðar fái nú smá kauphækkun.
    Ég vil nú hvetja hæstv. heilbrrh. til að gera eitthvað pínulítið meira heldur en að óska upp í ráðuneytinu sínu, að hann tali nú t.d. við manninn sem situr við hliðina á honum og beini að honum þeim eindregnu tilmælum að gengið verði til samninga. Það er ekki vansalaust hvernig að þessum samningamálum hefur verið staðið. Að sitja dag eftir dag og þegja upp í karphúsi, það eru ekki samningaviðræður, það er foröktun. Að vísu er þetta dönskusletta en ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherrar skilji þetta. Ég treysti því að báðir þeir ráðherrar sem hér sitja og hlusta á okkur fari nú að bretta upp ermarnar og gera eitthvað í málinu. Hvatning mín til þeirra beggja er þessi og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað hefur hann eiginlega lagt af mörkum í þessari deilu?