Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:47:35 (1904)


[15:47]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst þetta dálítið undarleg umræða. Hæstv. heilbrrh. kemur hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar úttútnaður af manngæðum og getur ekkert gert í málinu. Maðurinn sem hefur lykilinn til lausnar deilunni, hæstv. fjmrh., situr hins vegar hér og þegir þunnu hljóði aldrei þessu vant. Einu sinni var þessum frænda mínum ekki orðs vant. Mér þykir Bleik brugðið. Mér finnst við eiga kröfu á því, og þess vegna kveð ég mér hér hljóðs, að hæstv. fjmrh. tjái sig um þetta mál og upplýsi þingið um það hvort og þá hvenær hann ætlar að leysa þessa deilu. Hann hefur haft nógan tíma. Það kom honum ekkert á óvart að þessi deila yrði. Hann vissi af því svo missirum skipti að hún væri í uppsiglingu. Ég vil leyfa már að krefjast þess af hæstv. fjmrh. að hann tjái sig um þetta mál.