Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:48:48 (1905)


[15:48]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er að sjálfsögðu viðkvæmt og ég held að allir geri sér ljóst að það verður ekki leyst hér á hinu háa Alþingi.
    Það er að vísu siður hér að einstakir hv. þm. reyna að slá sér upp með því að taka mál af þessu tagi fyrir á hinu háa Alþingi og það er auðvitað leyfilegt en það leysir ekki málið. Ég ætla ekki að ræða um það hvort laun þeirra sem eiga í verkfalli eru há eða lág en allir vita að ef sú launastefna á að ná fram að við ætlum að ná lausn fyrir þá lægst launuðu þá gerist það eingöngu í heildarkjarasamningum þar sem allir aðilar á vinnumarkaði eru tilbúnir að slá skjaldborg um þá breytingu. Annars verður ekkert úr þessari stefnu sem menn hafa allir verið að gera að sinni.
    Samanburður er auðvitað alltaf erfiður. Ég vil nefna það í þessu sambandi að yfirlit yfir breytingu dagvinnulauna frá ársbyrjun 1992 til apríl 1994 sýnir að á þessu tímabili hafa meðallaun félaga í heildarsamtökum launþega á almennum markaði og hjá ríkinu samtals hækkað um 3,5--5%. Á sama tíma hækkuðu meðallaun félaga í Sjúkraliðafélagi Íslands um rúmlega 6%. Sú hækkun hefði orðið um 9% ef tilboði SNR hefði verið tekið. Yfirlit yfir breytingar á launum ýmissa starfshópa frá árinu 1987 til 1994 sýnir að frá ársbyrjun 1987 hafa laun félaga í bandalögum opinberra starfsmanna hækkað um 93--112% og það er mjög svipuð hækkun sem hefur gengið í gegnum kerfið. Sjúkraliðar hafa ekki dregist aftur úr. Það er rangt þegar því er haldið fram.
    Þá vil ég að síðustu, virðulegur forseti, segja það hér því hér er gott tækifæri til þess, að okkur hefur þótt skorta á það nokkuð að fram komi skýr tilboð frá sjúkraliðafélaginu og við væntum þess að innan tíðar muni félagið koma með gagntilboð af sinni hálfu og geri skýra grein fyrir launakröfum sínum. Það er undirstaða og forsenda þess að takist að leysa þessa deilu. Ég lýsi því yfir að það er að sjálfsögðu fullur vilji til þess af hálfu stjórnvalda.