Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:52:48 (1907)


[15:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það væri nú ástæða til að leiðrétta rangar fullyrðingar hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich en það er ekki erindi mitt hér í ræðustólinn. En það stéttarfélag sem hann tilheyrði var aðeins eitt af þremur stéttarfélögum kennara og við hin tvö sem voru mun stærri voru gerðir kjarasamningar án verkfalla allt það tímabil sem síðasta ríkisstjórn sat.
    Hæstv. fjmrh. fullyrti það hér fyrir tveimur mínútum síðan að sjúkraliðar hefðu ekki dregist aftur úr. Ég hef í dag borið fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um launaþróun sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Fyrirspurnin er orðuð á þann hátt að hæstv. fjmrh. á að geta lýst nákvæmlega stöðunni og breytingunum og þar með gengist undir próf um það hvort sú lýsing sem hann gaf hér áðan er rétt.
    Ég vil því skora á hæstv. fjmrh., vegna þess að þessar tölur eiga allar að liggja reiðubúnar í fjmrn., að svara þessari fyrirspurn hér strax í þessari viku. Þegar verkfallið stendur eins og hér hefur verið rætt, þá er auðvitað mjög brýnt að hæstv. fjmrh. sé reiðubúinn að leggja þessar upplýsingar fram. Hann getur út af fyrir sig skotið sér á bak við þá hefð hér í þinginu að bíða í tvær vikur eða svo með að svara fyrirspurn. Þessi fyrirspurn er hins vegar svo brýn að það á að vera hagsmunamál hæstv. fjmrh. að svara henni strax. Ég skora á hann að gera það næstu daga. Ef hann hins vegar dregur það á langinn þá er það eingöngu vegna þess að hæstv. fjmrh. er ekki tilbúinn að láta þessar tölur koma fram.