Vernd barna og ungmenna

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 11:21:25 (1919)


[11:21]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær góðu undirtektir sem þetta mál fær við 1. umr. hér á þinginu og ég tek undir allar góðar óskir bæði varðandi málaflokkinn og eins um að málið fái góða yfirferð í félmn. og komi hér í góðri sátt. Það er sem betur fer þannig að félmn. hefur haft tækfæri til þess að skoða þessar breytingar sem fram undan eru. Bæði hefur hún fengið yfirferð á þessu máli áður og svo á þessu hausti sérstaklega farið ofan í fjárveitingar varðandi fjárlögin sem snúa að málaflokknum og m.a. skoðað fyrirhugaðar hugmyndir um húsakaup fyrir móttöku- og meðferðarstöð. Þannig að félmn. hefur nokkuð sérstaklega tekið fyrir málaflokkinn börn og ungmenni á þessu hausti í fjárlagavinnunni.
    Ég fullvissa þingmenn um að þau nýmæli sem hér er mælt fyrir stefna öll að bættri barnavernd. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spyr hvort það hefði átt að hafa fleiri stofur, hvort ein stofa hér sé eitthvert bákn og í þeirri fjarlægð að ekki komi að nægilegu gagni. Auðvitað er það þannig þegar slík ákvörðun er tekin að það er aðeins tíminn sem getur leitt það í ljós hvort hér þyrftu fleiri stofnanir að koma til. En það kemur fram hér á bls. 5, með því skipuriti sem þar er sett upp. Þar er sett upp skipurit, að það er

félmrn. sem fer með yfirstjórn barnaverndarmála, stefnumótun, úrskurði, eftirlit, ákvörðun fjárhagsramma, umsjón með stofnframkvæmdum. Undir ráðuneytið heyrir síðan barnaverndarstofan, sem er með þau stjórnsýsluverkefni að sjá um samræmingu verkefna, fjármálastjórn, leiðbeiningar og ráðgjöf við meðferðarheimili og stofnanir og barnaverndarnefndir, sem er eitthvað það brýnasta og mikilvægasta í þessu frv., yfirumsjón með vistunum og fósturráðstöfunum, þróunarstarf, rannsóknastarf og upplýsingamiðlun. Og þegar maður hlustar á þessa upptalningu hér þá gerir maður sér grein fyrir hversu afar mikilvægt það er að vel takist til og að kraftar dreifist ekki. Þannig að ég er alveg sannfærð um að a.m.k. í upphafi sé mjög mikilvægt að þessi barnaverndarstofa sé ein. Undir þessa barnaverndarstofu heyrir síðan móttöku- og meðferðarstöð fyrir unglinga, sem er með skammtíma- og neyðarvistun, sérhæfða meðferð og eftirmeðferð og svo meðferðarheimilin og stofnanir fyrir börn og unglinga með meðferðarvistun og umhverfismeðferð, sem ég hef þegar gert grein fyrir.
    Frv. miðar að því að efla barnaverndarstarf sveitarfélaga þannig að ég vona að það muni reynast óþarft að koma upp fleiri barnaverndarstofum á fleiri stöðum, vegna þess að aukin aðstoð við sveitarfélögin á að miða að öflugri barnavernd hjá sveitarfélögunum því að þau eru best fallin til að sjá um þetta, en þau þurfa mörg svo mikla og góða aðstoð. Þannig að ég vona að útibú þurfi ekki að koma til.
    Það var líka spurt um hvað snúi að venjulegu fósturheimilunum og það sé oft mikið neyðarástand ef þarf að koma börnum í fóstur og að það sé tilviljun hvaða úrræði verði ofan á þegar börn búa við erfiðar aðstæður, veikindi, fangelsisvist eða annað. Ég tek undir þetta. Ég tek undir þessi orð. Ég hef einnig sjálf verið í barnaverndarnefnd og leitt barnaverndarnefnd öll þau ár sem ég var sveitarstjórnarmaður og ég er mjög meðvituð um það hversu mikilvægt það er að leita allra leiða til að styðja heimilið eins lengi og það er unnt, en gleyma því aldrei í þeirri vinnu að það eru hagsmunir barnsins sem eiga að ráða fyrst og síðast. Það eru einhver erfiðustu verkefni sem þeir sem starfa að barnaverndarmálum lenda í, að taka barn af heimili og maður verður að vera alveg viss að þegar svo er komið þá sé maður að gera það sem er barninu fyrir bestu því það er verið að rjúfa svo óhemju mikilvæg og sterk tengsl. Þess vegna er það afar mikilvægt að barnaverndarstofan á að veita barnaverndarnefndunum svo mikil ráð og setja reglur, veita þeim fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra og meta hæfni væntanlegra fósturforeldra og veita þeim fræðslu með námskeiðahaldi og öðru. Það er líka mjög mikilvægt að barnaverndarnefnd á að hafa samráð við barnaverndarstofu við val á fósturforeldrum.
    Það er einnig barnaverndarstofunnar að semja og gefa út nánari reglur og leiðbeiningar um stjórn, starfsfólk, m.a. hæfisskilyrði og menntun og allan aðbúnað á heimilum og stofnunum, sem eru reknar af einkaaðilum og sveitarfélögum á grundvelli 51. gr. og þetta mun auðvelda barnaverndarnefndum störf þeirra við þeirra eftirlit og gera þær öflugri og veita þeim möguleika til að sinna þessu mikilvæga starfi.
    Ég ætla líka vegna þeirra athugasemda sem komu frá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að geta þess varðandi fósturráðstafanir að þær eru allar undir félagslegri umsjón samkvæmt frv. og það er einmitt megintilgangur þessa frv. að ráða bót á þeim annmörkum sem nú eru eða hafa verið varðandi störf nefndanna. Vandamálin hafa fyrst og fremst verið að öflun fosturforeldra hefur verið erfið, að hæfni fósturforeldra hefur verið nokkuð ótrygg eða mat á því og ónægur undirbúningur og eftirfylgd vegna fósturráðstafana hefur átt sér stað. Í öllum þessum atriðum mun barnaverndarstofa gegna veigamiklu hlutverki í framtíðinni, m.a. með því að auglýsa eftir fósturforeldrum og halda skrá yfir þá þannig að barnaverndarnefndir hafi tryggan aðgang að góðu fólki, góðum fósturforeldrum, þegar nauðsyn krefur, að meta hæfni fósturforeldra og með því að samræma kröfur og að veita verðandi fósturforeldrum fræðslu og ráðgjöf til þess að axla þessa miklu ábyrgð sem þeir takast á hendur og ekki síst að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf og stuðning í fósturmálum og hafa eftirlit með því að fóstursamningar séu gerðir, en á því hefur verið brotalöm.
    Ég nefndi starf mitt að barnaverndarmálum og í félmn. og á þeim árum varð ég afar sannfærð um að það sem þyrfti að koma til í sveitarfélögunum væri mjög markviss ráðgjöf og þjónusta við fjölskyldur. Mér hefur fundist og ég hef verið ófeimin að segja það, þrátt fyrir það að ég hafi verið stjórnarliði frá því að ég settist hér inn á þing, að engar ríkisstjórnir sem ég hef stutt og starfað með hafa sett sér markvissa fjölskyldustefnu. Það hefur verið gert afar margt gott og mikilvægt í þessum málum, en markviss fjölskyldustefna hefur ekki verið sett fram. Ég er viss um að við eigum nægt efni í það með þeim aðgerðum og því sem hefur verið gert á ýmsum sviðum á þessum árum. En ég hef sjálf haldið því fram að einmitt vegna þess að þessi störf eru á vettvangi sveitarstjórnanna og eiga heima þar, að úti í sveitarfélögunum ættu helst að vera starfandi fjölskylduþjónustustofnanir. Ég upplifi það þannig að sú stofnun sem ég átti þátt í að móta og þróa, Félagsmálastofnun Kópavogs, hafi einmitt verið slík fjölskylduþjónustustofnun vegna þeirra víðtæku verkefna sem þar voru innan veggja og í svo miklu meiri og ríkari mæli á fjölskyldusviði almennt en fólk oft upplifir að sé í félagsmálastofnunum.
    Því miður er það svo, ég veit ekki hvers vegna, að það hafa þróast fremur neikvæðir straumar til orðsins félagsmálastofnun. Það eru einhver blæbrigði þar yfir að það sé neyðarráðstöfun að sækja þangað aðstoð þegar hallar undan fæti og það er ekki fyrr en í fullkomið óefni er komið oft og tíðum að fólk sækir þangað. Stundum hef ég trúað að það væri nægilegt í öflugu félagsmálastofnununum, í stóru bæjunum í landinu, að breyta heitinu til að koma til móts við þessi sjónarmið sem ég er að nefna. Það er afar mikilvægt að fjölskyldur telji það eðlilegan og góðan hlut að leita aðstoðar og upplýsingar ef einhvers staðar fer undan að halla og tímanlega og í þessum stofnunum sé möguleiki til að veita ráðgjöf og þjónustu í þessu mikilvæga hlutverki sem foreldrahlutverkið er og fjölskyldustofnunin sem slík er.
    Ef ég á þess nokkurn kost á þeim skamma tíma sem ég hef fengið það verkefni að sinna málum félmrn. þá vil ég stuðla að þessu og ég trúi því að það sé þangað sem við stefnum að í öllum sveitarfélögum sem vilja standa undir nafni með þjónustu við fjölskyldurnar í byggðarlögunum þá verði þessi starfsemi til staðar og sú þjónusta sem mikilvæg er áður en vandinn kemur. Það sem við hér erum að tala um er að bregðast við þegar vandinn er orðinn en það sem þarf að koma er að afstýra því sem allra mest að vandinn verði.