Vernd barna og ungmenna

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 11:32:14 (1920)


[11:32]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru mjög skýr. Hæstv. ráðherra telur ekki rétt að skoða það á þessu stigi málsins að stofurnar verði fleiri en ein og hún verði ein í Reykjavík. Ég hef ekkert út á það að setja. Ég tek undir með ráðherranum að tíminn einn sker úr um það hvort það dugar. Auðvitað vonum við öll að það dugi. Það væri það allra besta. En samt sem áður kem ég enn og aftur að því að ég tel að það væri æskilegra að þær væru fleiri og minni og væru nær vettvangi. Og ekki meira um það.
    Varðandi skipuritið og barnaverndarstofu þá var ég að sjálfsögðu búin að lesa skipuritið en það sagði mér ekki einmitt það sem ég var að spyrja. Ég spurði kannski ekki nægilega skýrt. Það sem ég er nákvæmlega að spyrja að er varðandi þessa sérfræðiaðstoð sem barnaverndarnefndir eiga að fá. Segjum svo að barnaverndarnefndir leiti ekki eftir þessari aðstoð og leiti ekki eftir þessari fræðslu sem þær þurfa. Verður það fastur liður hjá barnaverndarstofu að heimsækja barnaverndarnefndir um land allt eða bíður hún eftir kalli? Það er það sem ég var að leita eftir.