Skoðun kvikmynda

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 12:04:00 (1924)


[12:04]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala í þessu máli en er engu að síður kominn hér upp. Eftir að hafa hlustað á ræðu síðasta hv. þm. og sérstaklega hvernig hún byrjaði að Kvennalistinn væri mjög ósáttur og óánægður með þetta frv. þá átti ég nú von á gagnmerkari athugasemdum en fram komu í máli hv. ræðumanns.
    Ég hlýt að gera mér vonir um að Kvennalistinn komi með brtt. til að laga þetta frv. og gera það aðgengilegra og sýni þær tillögur þingheimi öllum. Einu athugasemdir sem ég heyrði í máli þingmannsins voru í fyrsta lagi að þingmaðurinn vildi auka refsingar, en sagði samt í næsta orði að hún væri ekki refsiglöð kona. Hinn aðalpunkturinn var kannski sá að banna auglýsingar í sjónvarpi á tilteknum tíma dagsins og hvað yrði þar auglýst og fara að ritskoða það með einhverjum hætti.
    Hún minntist líka á það að ofbeldi væri skaðlegt fyrir börn. Við erum öll sammála því að það geti verið mjög skaðlegt og börn apa mikið eftir slíkum hlutum. En ég vil benda á að það ofbeldi sem börn alast kannski hvað mest upp við og hafa alla tíð gert frá því að bæði ég og hv. þm. sem talaði áðan er það ofbeldi sem birtist í teiknimyndunum. Það er það sem börnin alast upp við. Ef menn vilja bara rifja upp vinsælan þátt eins og Tomma og Jenna, þá byggist hann algerlega upp á ofbeldi. Ef menn ætla að fara að loka fyrir ofbeldi þá verða menn að stíga ansi stórt skref sem er mjög erfitt að gera. Þannig að ég bíð nú bara eftir tillögum Kvennalistans og hvernig þær líta út.
    Það sem ég kom hér fyrst og fremst upp til að segja er ekki að ræða um Kvennalistann og þeirra

skoðanir heldur fyrst og fremst það að ég er í svolitlum vafa um hvernig á að framfylgja ákveðnum þáttum þessara laga. Það er hægt að stýra sýningum ofbeldiskvikmynda í kvikmyndahúsum. Það er lítið mál og er sjálfsagt gert eins og hægt er. En þegar komið er að sjónvarpinu þá held ég að það sé orðið afar erfitt. Við lifum á gervihnattaöld og í húsum hér er fjöldi erlendra sjónvarpsstöðva, sem við höfum engin tök á að sporna við. Þar flæðir ofbeldið inn. Ég er svolítið efins um að við náum nokkurn tímann utan um þetta þó við getum reynt að stýra þessu á einhvern hátt inni í okkar sjónvarpskerfi. Þá held ég að það ætti frekar að reyna að stýra því fyrst og fremst í gegnum sýningartímann því við upplifum það oft að miklar ofbeldismyndir eru t.d. snemma á kvöldi á laugardegi og á eftir þeirri mynd, kannski undir 11 eða um 12-leytið er sýnd einhver fjölskyldumynd og þá eru börnin farin að sofa eða kannski of hrædd til að fara að sofa eftir ofbeldismyndina. Það má því kannski miklu frekar stýra þessu eftir þeim leiðum.
    Ég sé ekki alveg og spyr hæstv. ráðherra að því: Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir að ofbeldið flæði inn á heimilin á þessari tækniöld sem við lifum í dag? Ég sé ekki hvernig það er hægt. Góður vilji er fínn og gott að reyna að hafa ákveðna stefnu og reyna að fylgja henni eftir en menn verða að gera sér grein fyrir að við lokum ekki ofbeldið úti. Ekki nema við ætlum að einangrast hér algerlega eins og er vissulega stefna ákveðinna aðila.
    Á sömu nótum mál segja það í þessum tvískinnungi öllum að við erum að banna ákveðnar tegundir auglýsinga en þær flæða líka inn í landið í gegnum þessar stöðvar. Áfengis- og tóbaksauglýsingar, alla vega áfengisauglýsingar, ég man nú ekki eftir að hafa séð tóbaksauglýsingar. Þær eru á þessum stöðvum og í miklu magni. Þetta er af sama meiði þannig að það er spurningin: Ætla menn að standa í vegi fyrir framþróun tækninnar? Ég held að það sé eina leiðin ef það á að fara að loka þetta af.
    Ég tek hins vegar undir með síðasta ræðumanni varðandi refsingarnar að það má hugsanlega beita leyfissviptingu. En ég reikna með að hún sé til staðar í öðrum lögum, væntanlega hegningarlögunum. Það kemur væntanlega í ljós. En það er ekki mikið mál að bæta því inn í þessi lög.
    Það var fyrst og fremst þetta með gervihnattasjónvarpið og þann punkt sem ég vildi inna ráðherrann eftir hvernig í ósköpunum við gætum framfylgt slíkri stefnu.