Skoðun kvikmynda

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 12:09:13 (1925)


[12:09]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. síðasti ræðumaður tók af mér ómakið og rakti nokkurn veginn þau úrræði sem ég benti á í ræðu minni. Ég stiklaði á því stærsta. Ég held að leyfissviptingin sé einmitt atriði sem skipti þar máli. Ég þakka honum líka fyrir að benda á þetta varðandi sýningartíma í sjónvarpsstöðvum því það er atriði sem ég get fyllilega tekið undir. Það kom fram að það er ný stefna á annarri stöðinni að taka ofbeldiskvikmyndir framar á dagskrá en fyrr hefur verið. Þetta er nýskeð og er gert til ,,reynslu`` er sagt. Mér finnst þetta alveg óskaplegt í rauninni að við skulum ekki hafa möguleika á því að meina sjónvarpsstöðum að gera þetta.
    Varðandi gervihnattasamstarfið þá tók ég það fram í ræðu minni og ítreka það enn að ég held að þar verðum við að vinna með öðrum þjóðum. Í Bandaríkjunum er mjög öflug umræða um að stemma stigu við ofbeldisefni. Ég á von á að þessi umræða sé að komast á skrið víða í Evrópu, a.m.k. víða í Norður-Evrópu í kjölfarið á þeim atburðum sem þar hafa orðið. Ég held að með sameiginlegu átaki megi gera býsna mikið. Við gerum ekkert einangrað hér með því að fara að loka fyrir eitt eða neitt heldur gerum við þetta í þeim alþjóðlega heimi sem við lifum í. Þannig eigum við að vinna og ég hef trú á því að ef nógu margir taka höndum saman til að vinna að þessu máli þá getum við þetta mjög auðveldlega. En ég bendi á að þorri barna hefur aðgang að sjónvarpsstöðvunum, myndbandaleigunum og kvikmyndahúsunum. Þetta er stærsti hópurinn og þar getum við gert býsna margt. Ég þarf ekki að rekja það því hv. síðasti ræðumaður gerði það. Ég ætla ekki að ganga eins langt eins og hann og banna Tomma og Jenna, en hugmyndin er góð og ég þakka fyrir hana.