Skoðun kvikmynda

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 12:14:21 (1928)

[12:14]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ríkisstjórninni fyrir það frv. sem hér liggur fyrir um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Eftir þessu frv. hefur verið beðið ekki síst vegna þeirra voveiflegu atburða sem hafa átt sér stað bæði hér heima og erlendis og sumir tengja við ofbeldi í kvikmyndum og tölvuleiki. Þó því miður sé ekki til mikið af rannsóknum sem sanna að um orsakasamband sé að ræða á milli ofbeldisverka hjá börnum og fullorðnum og þess að horfa á ofbeldismyndir, þá er alveg ljóst að aukið eftirlit getur ekki verið annað en af því góða þó vissulega þurfi sjónarmið um rit- og prentfrelsi einnig að ráða ferðinni.
    Þetta frv. er of veikt að mínu mati og vil ég þar sérstaklega vekja athygli á tveimur greinum. Í 11. gr. segir eingöngu að ráðherra sé heimilt að setja reglur um skoðun tölvuleikja sem geyma gagnvirka leiki. Annað er það ekki. Þetta ákvæði og þessi grein um tölvuleiki tryggir alls ekki að nokkuð verði gert og ég legg því til að þessi grein verði gerð sterkari í meðferð menntmn.
    Þá vil ég benda á 5. gr. en þar segir að sjónvarpsstöðvar skuli sjálfar annast skoðun kvikmynda sem þær hyggjast sýna á dagskrá sinni enda haft samráð við kvikmyndaskoðunarnefnd.
    Ég hef í mínu starfi sem háskólakennari í uppeldis- og menntunarfræði og uppeldissálfræðingur bæði lagt þau verkefni fyrir nemendur mína og gert það sjálf að fylgjast með barnaefni í sjónvarpsstöðvunum, bæði hjá Stöð 2 og ríkissjónvarpinu, og oftar en ekki hef ég þá verið að skoða þetta efni með tilliti til kynjajafnréttis. En í leiðinni kemst maður ekki hjá því að veita því eftirtekt að þarna er mjög mikið að, sem sagt bæði á því sviði en einnig er þarna margt að á sviði ofbeldis. En út af umræðunni hér um Tomma og Jenna, þá held ég að það sé rétt að taka það fram að sumt er auðvitað saklausara en annað í þessum málum en ég held að það sé alveg lágmarkskrafa að kvikmyndaskoðunarnefnd komi að því efni sem snertir börn því mér virðist að það megi vinna þetta verk betur en nú er gert.
    Ég vil að lokum taka undir með síðasta ræðumanni sem talaði um að við lifum auðvitað á tölvuöld og við getum engan veginn haft stjórn á öllu því efni sem hingað kemur inn í gegnum gervihnetti og í gegnum svokallað Internet eins og nýsýndur sjónvarpsþáttur sýndi okkur vel og minna á að í þeim efnum á þessu sviði er auðvitað fyrirbyggjandi starf langmikilvægast. Það er miklu hættulegra fyrir börn að verða vitni að ofbeldi á sínum eigin heimilum því foreldrarnir eru mikilvægustu fyrirmyndirnar. Þannig að kvikmyndirnar geta haft áhrif, við höldum að þær hafi áhrif, við höfum ekki miklar sannanir fyrir því en foreldrarnir eru mjög mikilvægir áhrifaaðilar og þess vegna held ég að það eigi það sama við hér og áðan þegar við vorum að ræða um barnaverndarmálin að það þarf fyrirbyggjandi starf, það þarf foreldrafræðslu og það er langheilladrýgst til að koma í veg fyrir að þessi mál skaði börn og að við þurfum að grípa til þeirra úrræða sem barnaverndarlögin kveða á um. Þess vegna vil ég aukna foreldrafræðslu, aukið fyrirbyggjandi starf en að það sé lágmarkskrafa að fylgst sé með því efni sem börn fá að sjá í þessu þjóðfélagi.