Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 12:35:43 (1932)

[12:35]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og trn. í kjölfar umræðu um framkvæmd ákvæða um lyfsölu dýralækna í lyfjalögum, nr. 93/1994, sem öðluðust gildi 1. júlí sl. Frv. er fyrst og fremst ætlað að taka af öll tvímæli um það að dýralæknum sé heimilt að selja dýralyf frá starfsstofu sinni en við umfjöllun nefndarinnar um frv. til lyfjalaga í vor kom ekki fram að ætlunin væri að takmarka rétt dýralækna að þessu leyti.
    Heilbr.- og trn. hefur fjallað ítarlega um málið og leitað álits heilbr.- og trn., yfirdýralæknis, Lyfjaeftirlits ríkisins, Dýralæknafélags Íslands, Stéttarsambands bænda og Samkeppnisstofnunar. Í starfi sínu hafði heilbr.- og trn. að leiðarljósi að lagaákvæði um lyfsölu dýralækna yrðu þannig úr garði gerð að þeir sem eiga að vinna á grundvelli þeirra og njóta þjónustu samkvæmt þeim telja lögin þjóna tilgangi sínum. Við undirbúning frv. þessa komu upp ýmis álitaefni, einkum varðandi það hvort heimild til lyfsölu dýralækna stæðist ýmis grundvallaratriði lyfjalaga, nr. 93/1994, og ákvæði annarra laga, svo sem samkeppnislöggjafar. Fram kom í áliti Samkeppnisstofnunar að lyfsala dýralækna sýndist ekki samrýmast þeirri hugsun sem væri að baki 2. mgr. 21. gr. lyfjalaga sem hljóðar svo:
    ,,Starfandi læknar, tannlæknar og dýralæknar mega ekki vera eigendur, hluthafar eða starfsmenn lyfjabúða.``
    Heilbr.- og trn. leggur því til að bætt verði við 2. mgr. 21. gr. laganna nýjum málslið til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 3. gr. frv. þessa þannig að í ákvæðinu segi að um lyfsölu dýralækna gildi 5. mgr. 30. gr. Þá bendir nefndin á að jafnframt komi fram í áliti Samkeppnisstofnunar að byggðasjónarmið kynnu að réttlæta undantekningu varðandi lyfsölu dýralækna.
    Hv. heilbr.- og trn. telur eftir að hafa kynnt sér sjónarmið þeirra sem hér eiga hagsmuna að gæta að hinar sérstöku aðstæður sem eru í dreifðum byggðum landsins réttlæti að gerð verði undantekning á. Því leggur nefndin til að dýralæknunum verði veitt sú heimild til lyfsölu sem héraðsdýralæknar höfðu áður skv. 58. gr. laga nr. 76/1982, um lyfjadreifingu. Á hinn bóginn leggur nefndin til að gerðar verði nokkrar takmarkandi breytingar og með því verði að nokkru leyti vegið upp á móti þeirri heimild sem opnuð er fyrir lyfsölu dýralækna. Þær breytingar eru sem hér segir:
    1. Lagt er til að í 11. gr. laganna verði kveðið á um að yfirdýralæknir hafi eftirlit með ávísunum dýralyfja, en ekkert slíkt ákvæði er í lyfjalögum nr. 93/1994.
    2. Lagt er til að bætt verði við 30. gr. laganna ákvæði þar sem kveðið er á um heimild til hæstv. heilbr.- og trmrh. í samráði við yfirdýralækni til setningar reglugerðar þar sem kveðið er nánar á um ýmis atriði varðandi lyfsölu dýralækna, m.a. um eftirlit.
    3. Lögð er til sú grundvallarbreyting að verð á öllum dýralyfjum, einnig þeim sem seld eru án lyfseðils, verði háð ákvörðun lyfjaverðsnefndar. Með því er talið tryggt að dýralæknar geti ekki haft óeðlilega mikla hagsmuni af sölu dýralyfja en slík staða hefði getað skapast, einkum þar sem samkeppni er lítil sem engin.
    Að lokum skal þess getið að Samkeppnisstofnun gerði í áliti sínu til nefndarinnar athugasemd við samkeppnisstöðu dýralækna annars vegar og lyfsala hins vegar, sbr. 24. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, þar sem segir m.a.:
    ,,Lyfsölum er skylt að hafa á boðstólum lyf sem selja má hér á landi, hafa hæfilegar lyfjabirgðir miðað við ávísanir þeirra lækna, tannlækna og dýralækna sem starfa á viðkomandi svæði og útvega þau lyf sem ekki er að finna í birgðum þeirra svo fljótt sem auðið er.``
    Varðandi þetta atriði vill hv. heilbr.- og trn. taka fram að ákvæðin gera ráð fyrir að skylda lyfsala markist af lyfjaávísunum. Þannig hljóta aðstæður á hverjum stað að vera grundvöllur þeirrar skyldu sem hér er lögð á herðar lyfsölum og þar sem dýralæknar hafa á hendi sölu dýralyfja gegn álagningu verður að gera ráð fyrir að þeir haldi sjálfir þær birgðir sem nauðsynlegar eru. Héraðsdýralæknar hafa auk nokkurra almennra dýralækna hingað til haft með höndum sölu dýralyfja og virðast ekki hafa komið upp vandkvæði að þessu leyti í framkvæmd. Fyrir liggur að samstarf lyfsala og dýralækna hefur hins vegar mótast eftir aðstæðum á hverjum stað. Hv. heilbr.- og trn. telur því að það frv. sem hér er lagt fram stríði ekki gegn ákvæðum 24. gr. lyfjalaga. Nefndin vill hins vegar benda á að ákvæði samkeppnislaga, nr. 8/1993, gilda um viðskipti almennt og þar á meðal um lyfsölu. Ef upp kunna að koma einstök tilvik á einhverju sviði lyfsölu þar sem aðstæður eru slíkar að viðskipti eru talin brjóta í bága við ákvæði samkeppnislaga gilda viðurlög þeirra laga um þau tilvik.
    Virðulegur forseti. Hér erum mjög vandmeðfarið mál að ræða. Hv. heilbr.- og trn. tók þetta mál upp sl. sumar, hefur fjallað um það á allmörgum fundum og farið ítarlega yfir allar hliðar og þætti þess. Það varð að lokum niðurstaða nefndarinnar að leggja fram frv. til laga er innheldur þær breytingar er ég hef nú gert grein fyrir. Ég vil taka fram að hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir standa að þessu frv. með fyrirvara.
    Að lokinni 1. umr. legg ég til að málið verði sent hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.