Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:33:06 (1935)

[13:33]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Þann 4. mars sl. ákvað ríkisstjórnin að biðja nokkrar stofnanir Háskóla Íslands að gera úttekt á því hvaða þýðingu það hefði fyrir Ísland í fyrsta lagi að standa utan ESB með hliðsjón af væntanlegri aðild annarra EFTA-ríkja og miðað við viðskiptakjör EES-samningsins, að þau yrðu óbreytt og í öðru lagi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það var gert ráð fyrir því í samþykkt ríkisstjórnarinnar að Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands skoðaði áhrif á utanríkis- og varnarmál, Félagsvísindastofnun liti á áhrif á pólitíska ákvarðanatöku, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands átti að kanna almenn efnahagsleg áhrif, m.a. á samkeppnisstöðu atvinnuveganna, Lagastofnun bar að gera úttekt á áhrifum á fullveldishugtakið og að lokum var ætlast til þess að Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands kortlegði afleiðingar sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og áhrif á sjávarútveginn.
    Fjórar af þessum skýrslum hafa verið sendar utanrmn., þar af ein merkt bráðabirgðaskýrsla og trúnaðarmál, en boð bárust utanrmn. um að skýrsla Hagfræðistofnunar væri ekki fullfrágengin.
    Virðulegi forseti. Þegar borin eru saman samþykkt ríkisstjórnarinnar þann 4. mars og þau efnistök sem fram koma í tveimur af þessum skýrslum kemur í ljós að þær fjalla ekki um það sem ríkisstjórnin bað um. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir því að Sjávarútvegsstofnun kortlegði afleiðingar sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og áhrif á sjávarútveginn. Í skýrslu Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands er ekki fjallað um þennan þátt málsins. Skýrslan fjallar um þróunarsjóði ESB, möguleika Íslands til að njóta styrkja Evrópusambandsins og samkeppnisstöðu Íslands gagnvart Noregi. Í skýrslunni er ekki gerð nein tilraun til að meta afleiðingar sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins á íslenskan sjávarútveg, stjórn Íslendinga á auðlindinni og nýtingu hennar eða áhrif Evrópusambandsaðildar á eignarhald Íslendinga á fiskiskipaflota og fiskvinnslu.
    Það vekur mikla athygli að í skýrslunni skuli þannig sneitt hjá meginvanda Evrópusambandsaðildar fyrir Íslendinga en athyglinni beint að styrkjum Evrópusambandsins, rétt eins og ríkisstjórninni, Alþingi og þjóðinni sé mest í mun að geta metið raunhæft möguleika á því að njóta styrkjakerfis sambandsins.
    Þegar erindisbréf utanrrn. til Háskóla Íslands eru skoðuð kemur í ljós að þar er hlutverk Sjávarútvegsstofnunar takmarkað við þetta viðfangsefni. Í bréfinu segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stofnunin er beðin að leggja sérstaka áherslu á styrkjakerfi Evrópusambandsins í sjávarútvegi og áhrif á samkeppnisstöðu Íslands gagnvart Noregi.``
    Svipuð áhersla er lögð á styrkjakerfi ESB í erindi til Hagfræðistofnunar. Af þessu verður ekki annað séð en að utanrrn. hafi breytt áherslumálum ríkisstjórnarinnar. Það er því óhjákvæmilegt að hæstv. utanrrh. sé inntur eftir því hvers vegna samþykkt ríkisstjórnarinnar var þannig breytt, hvort það var gert í samráði við hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. Það verður að teljast í hæsta máta sérkennilegt að nú þegar þjóðin er að byrja að rétta úr kútnum eftir langt stöðnunar- og samdráttartímabil, að nú þegar þjóðin hefur fært miklar fórnir til að ná stöðugleika í efnahagsmálum og fóta sig til nýrra átaka í atvinnumálum, að

nú þegar markvisst hefur verið unnið að því að losa íslensk fyrirtæki út úr opinberu styrkjakerfi, þá skuli hæstv. utanrrh. leggja sérstakt kapp á að kalla fram möguleika Íslendinga á því að njóta styrkja ESB á sviði sjávarútvegs og að telja það vera forgangsverkefni, en víki til hliðar því verki sem honum var falið að varpa ljósi á með aðstoð Háskóla Íslands, þ.e. áhrif sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, vald okkar yfir meginauðlind okkar og eignarhald okkar á fiskiskipaflota þjóðarinnar.
    Eitt af megin markmiðum Íslendinga í utanríkismálum hefur jafnan verið að tryggja okkur viðskiptafrelsi á mikilvægustu markaðssvæðum okkar. ESB var stofnað sem bandalag um viðskiptafrelsi, um sameiginlegan markað. Það hefur hins vegar þróast yfir í að verða stórbrotin tilraun til kjarajöfnunar í Evrópu. Það hefur ekki reynst þess megnugt að rífa sig út úr styrkjakerfi í landbúnaði og sjávarútvegi. Evrópusambandið hefur stundað uppbyggingarstarf á félagslegum forsendum í Suður-Evrópu og fram undan eru gríðarleg verkefni á sviði félagslegrar uppbyggingar í Mið- og Austur-Evrópu. Það veldur mér verulegum áhyggjum að utanrrh. Íslands hæstv. virðist hafa meiri áhuga á jöfnunarstyrkjum og millifærslukerfi Evrópusambandsins, á félagslegum markmiðum Evrópusambandsins, en á viðskiptafrelsi. Hann hefur jafnvel meiri áhuga á millifærslukerfinu en á sjálfstæði þjóðarinnar og stjórn á auðlindum okkar, sem eru þó uppspretta lífskjara okkar og efnahagslegs sjálfstæðis.