Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:38:29 (1936)


[13:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki alveg ljóst hvað vakir fyrir hv. þm. með þessari umræðu og þá sérstaklega í ljósi þess að ef eitthvað þykir óupplýst varðandi vinnu stofnana háskólans að beiðni ríkisstjórnar þá hefur hæstv. menntmrh. þegar gefið skriflegt svar við ítarlegum fyrirspurnun hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í því efni og fáu við það að bæta.
    Að sjálfsögðu er algjörlega út í hött að fara að ræða hér eitthvað efnislega um þróun Evrópusambandsins í þessari umræðu, enda getur það nú naumast verið tilgangurinn. En málið er ekkert mjög flókið. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda þá gerði ríkisstjórnin sína samþykkt þann 3. mars, eins og hann fór með, og í framhaldi af því, daginn eftir, skrifaði utanrrn., sem framkvæmdaaðili, þessum fimm stofnunum, Alþjóðamála-, Félagsvísinda-, Hagfræði-, Sjávarútvegs- og Lagastofnun, kom á framfæri samþykkt ríkisstjórnarinnar, og óskaði eftir því að þessar stofnanir tækju verkið að sér. Í framhaldi af því fóru að sjálfsögðu fram samtöl sem síðan leiddu til formlegrar verkbeiðni. Þetta er í marsmánuði og formleg bréf eru í byrjun maí. Þannig hafa þessar stofnanir síðan haft maí, júní, júlí og ágústmánuð og fram í september til þess að skila. Að vísu var ætlast til þess að þær skiluðu fyrr, um mitt sumar, en bæði var að það kom sameiginlega fram í máli forsvarsmanna stofnananna að þeim þóttu litlir fjármunir og tíminn takmarkaður. Niðurstaðan varð sú að stofnanirnar skiluðu yfirleitt, þær sem hafa skilað, í lok september. Þannig skiluðu Alþjóðamálastofnun, Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun ályktunum sínum í lok september en Sjávarútvegsstofnun þann 26., en tók fram að það væru drög og stimplaði sjálf sem trúnaðarmál.
    Utanrrn. kom þessum skýrslum á framfæri jafnóðum til ráðherra í ríkisstjórn og þann 30. sept. til utanrmn. þar sem þær hafa getað verið til umfjöllunar.
    Það þarf að taka fram tvennt í þessu sambandi: Lagastofnun hefur engu skilað og ég hef engar upplýsingar um áform hennar um það. Að því er varðar sjávarútveginn sem mér fannst vera aðalatriðið í máli hv. þm. þá er rétt að taka það fram að samþykkt ríkisstjórnarinnar hljóðaði upp á þetta: Sjávarútvegsstofnun kortleggi afleiðingar sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB og áhrifa á sjávarútveginn. Hún fékk 500 þús. kr. til þessa verks.
    Í samtölum við forsvarsmenn stofnunarinnar kom það fram að þeir treystu sér einungis til þess á þessum tíma og miðað við þessa fjármuni að gera skýrslu um afmarkaða þætti málsins. Í ljósi þess er óskað eftir verklýsingu frá Sjávarútvegsstofnun og hún hljóðaði upp á eftirfarandi:
    1. Fiskveiðistefnu ESB, fyrirætlun og framkvæmd.
    2. Áhrif inngöngu eða ekki inngöngu með tilliti m.a. til reynslu Norðmanna.
    3. Stuðningssjóði ESB í sjávarútvegi.
    Síðan markaðsaðgang og núverandi EES-samning, sameiginlegan fjármagnsmarkað og eignarhald og fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er verklýsingartillaga stofnunarinnar sjálfrar en hún tók það fram að hún treysti sér ekki á tilsettum tíma og með þessum fjármunum að vinna nema hluta verksins.
    Niðurstaðan varð sú að hún tók að sér þrjá fyrrgreindu þættina.
    Ef menn eru óánægðir með efnistök í skýrslunni eða það hvað hún hefur gert þá er það sérmál en henni var vissulega falið að fjalla um fiskveiðistefnu ESB og áhrif inngöngu í ljósi þess.
    Þannig að ég vísa því á bug að í samtölum eða fyrir milligöngu utanrrn. hafi hún verið beðin að gera eitthvað annað en ríkisstjórnin samþykkti.
    Að því er varðar síðan umræður og upplýsingagjöf þá vil ég einfaldlega taka fram eftirfarandi:
    Það var svo alveg frá upphafi að það var ekki í huga utanrrn. að það yrði einhver kynningaraðili að þessum skýrslum. Sjálfsagt er að þær fari sinn eðlilega farveg, þ.e. til ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur ekki lokið umfjöllun um málið og hefur ekki fengið allar skýrslurnar í hendur, það vantar a.m.k. Lagastofnunina, og endanleg skil frá Sjávarútvegsstofnun.
    Síðan er málið til umfjöllunar í utanrmn. Þá spyrja hv. þm.: Hvers vegna er þessu máli ekki dreift til þingsins? Við sömdum ekki við þessar stofnanir um að hafa um það milligöngu. Það eru þessar stofnanir sem bera ábyrgð á þessari fræðilegu umfjöllun, þetta eru ekki stjórnsýsluskýrslur og við höfum skrifað þeim sérstaklega að þegar þeir hafa lokið sínu verki og þetta er búið að vera svona lengi í umfjöllun nefnda, þá eigi þeir að hafa óbundnar hendur af því að kynna sjálfir sínar skýrslur sem þeir bera fræðilega ábyrgð á. Það er ekki stjórnvalda út af fyrir sig að gera það. (Forseti hringir.)
    Það er örstutt athugasemd --- að því er varðar skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans. Mér bárust um það upplýsingar í nóvember að hún væri enn í vinnslu af hálfu stofnunarinnar. Það var mér ekki kunnugt um áður.
    Síðan er vikið að því af hverju alþýðuflokksfélögin hafi efnt til fundar um málið. (Forseti hringir.) Um það mál er ekkert annað að segja en það að leitað var til þessara forsvarsmanna um það að koma fram á opinberum fundi, það var þeirra ákvörðun og þeirra ábyrgð hvort þeir gerðu það eða ekki.