Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:46:33 (1938)


[13:46]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Umræða um þessar skýrslur er að verða mjög sérkennileg. Hér rís upp stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar og segir um hæstv. utanrrh. að hann hafi meiri áhuga á millifærslukerfum en sjálfstæði þjóðarinnar. Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki verið með svona miklar ásakanir í garð núv. ríkisstjórnar. Við höfum ekki verið að brigsla utanrrh. um það að hann hafi engan áhuga á sjálfstæði þjóðarinnar. Við erum að vísu ósammála honum um það hvort það eigi að sækja um aðild að ESB. En hér er sett á dag eftir dag í þinginu umræða á milli stjórnarliða um þetta mál. Hvernig má það vera að það sé ekki verið að sinna þeim atriðum sem skipta máli í sambandi við þetta mál? Það eru þeir samningar sem eru nú fram undan um stofnanaþáttinn og ég veit ekki til þess að séu í miklum undirbúningi enda er kröftunum öllum eytt í það að rífast um það milli stjórnarliða hvort það eigi að sækja um aðild að ESB eða ekki.
    Að mínu mati á það ekkert að vera á dagskrá. En í svona stóru máli er grundvallaratriði sá undirbúningur sem nú þyrfti að vera í gangi. Við höfum verið að spyrja um það í utanrmn., við höfum engin svör fengið. Hvar eru þau undirbúningsskjöl varðandi stofnanaþáttinn sem ætti að vera búið að útbúa í hæstv. ríkisstjórn? Hvar eru þau undirbúningsskjöl sem varða breytingar að því er varðar sjávarútveginn og landbúnaðinn? Það hefur ekkert komið um það. Það eina sem hefur komið eru þessar skýrslur frá Háskóla Íslands og okkur er sagt að það sé um trúnaðarmál að ræða.
    Við höfum ekki fengið leyfi til þess í stjórnarandstöðunni að taka þessar skýrslur og ræða þær úti í þjóðfélaginu. En á sama tíma og við liggjum undir trúnaði í þessu máli er verið að ræða þessar skýrslur á milli stjórnarflokkanna. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?