Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:49:00 (1939)


[13:49]

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er vægast sagt þreytandi og raunar alveg óþolandi að hafa tvískipta ríkisstjórn þar sem forustumenn flokkanna geta aldrei komið sér saman um neitt sem máli skiptir. Mér þætti gaman að vita hvernig samráði hefur verið háttað á milli ráðherra ríkisstjórnarinnar eftir flokkum varðandi það að Sjávarútvegsstofnun er skyndilega beðin um allt annað en upphaflega var talað um og hvort það hafi þá verið gert í samráði við hæstv. forsrh. sem fulltrúa hins stjórnarflokksins og leiðtoga þessarar ríkisstjórnar að það var aðeins fjallað um afmarkaðan þátt því óneitanlega hljóta skýrslur af þessu tagi að vera skoðanamyndandi. Þetta er í rauninni nýjasta dæmið og eitt það alvarlegasta þar sem hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. eða alla vega flokksbræður hans virðast tala hvor í sína áttina.
    Við höfum áður átt umræðu í þessum sölum um þá leynd sem hvílir yfir þeim skýrslum sem hér um ræðir og það mismunandi mat á því á hvaða stigi þær eru og hvort það beri að kynna þær allar í einu eða eina eftir aðra í fréttatíma eða á fundum. Óneitanlega hefur þetta áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu. Við í utanrmn., eins og fram hefur komið hér, erum bundin trúnaði og við virðumst vera eina fólkið í landinu sem er bundið trúnaði varðandi þetta mál og það fer að verða vægast sagt neyðarlegt og í versta falli alveg óþolandi. Þetta er bara enn eitt dæmið um að þessi ríkisstjórn er hreinlega óhæf til starfa og Evrópusambandsmálið er einfaldlega allt of stórt til þess að það sé fjallað um það með svona gáleysislegum hætti.