Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:53:53 (1941)


[13:53]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég er sammála mörgu í þeirri gagnrýni sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich setti hér fram. Mér fannst reyndar einkennilegt af ríkisstjórninni að vera að ómaka sig að biðja um þessar skýrslur á sínum tíma vegna þess að ríkisstjórnin vissi auðvitað hverjir mundu skrifa þær og hún vissi að hvaða niðurstöðu hinir háværu áróðursmenn fyrir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið mundu komast.
    Varðandi efni skýrslnanna þá orkar margt í þeim tvímælis og annað er beinlínis rangt. Kynningin á skýrslunum er sérmál. Fyrst eru þær kynntar í fjölmiðlum. Síðan eru þær lagðar fram sem trúnaðarmál í utanrmn. Síðan eru þær kynntar á kratafundi í bænum enda skrifaðar fyrir krata. Þær eru að hluta til pólitísk ráðgjöf, pólitísk áróðursrit, ekki fullburða fræðileg úttekt á málinu. Mér segir reyndar svo hugur um að sumir af skýrsluhöfundum eigi eftir að taka við störfum í Brussel. Ég vonast eftir því að þegar þær koma í endanlegri mynd þá verði þær með leiðréttingum sem nauðsynlegar eru. Ég vona sannarlega að skýrsla Lagastofnunar, sem enn þá hefur ekki litið dagsins ljós, verði fullburða fræðileg úttekt.
    Það eru svona vinnubrögð sem eru háskólanum hættuleg. Ekki eingöngu það að háskólinn sé sveltur fjárhagslega. Með því að senda frá sér plögg eins og sumar af þessum skýrslum eru þá er Háskóli Íslands að gera sjálfan sig að annars flokks háskóla.