Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:58:25 (1943)


[13:58]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það sem er alla vega klár niðurstaða úr þessum umræðum er það að verkbeiðni utanrrn. til Sjávarútvegsstofnunar háskólans er ekki í samræmi við bókun og samþykkt ríkisstjórnar Íslands. Það er niðurstaða þessarar umræðu.
    Hæstv. utanrrh. hefur að vísu sett fram þá skýringu að það hafi ekki verið talið fært af hálfu Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands að fara út í grundvallarathuganir á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins með þeim fjármunum og þeim tíma sem til þess var ætlað. En þá er alla vega ljóst að ef þannig hefur verið skipað málum þá hefði að sjálfsögðu átt að tryggja það að sú athugun sem færi fram tryggði einhvers konar jafnvægi í þessari umræðu. Það er alveg deginum ljósara að þegar verið er að fjalla um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þá er ekki hægt að gera það af neinu viti með því að einblína eingöngu á styrkjaþátt þeirrar stefnu. Það er til að mynda alveg ljóst að ef við erum að ræða þessi mál þá hlýtur ein áleitnasta spurningin sem vaknar hverju sinni að vera þessi: Hver er réttur Evrópusambandsins og skipa þess til þess að fiska í landhelgi aðildarríkjanna? Þetta er sú spurning sem er á allra vörum. Ef það er niðurstaðan, sem mér skilst að sé af máli hæstv. ráðherra, að ekkert sé um þennan þátt fjallað þá er verið að fjalla um svo afmarkaðan þátt að það gefur enga heildarmynd af því máli sem menn settu sér í upphafi að skoða. Þess vegna finnst mér að vinnubrögðin í þessu sambandi séu gjörsamlega óásættanleg.
    Síðan er staða þessara skýrslna. Ég hef verið að reyna að vekja athygli á því að það virðist eins og þessar skýrslur berist alls staðar annars staðar um þjóðfélagið en inn á borð okkar þingmanna. Nú er það upplýst að þessar skýrslur séu eitthvert plagg sem menn eigi að dreifa úr háskólanum. Þetta eru einhvers konar munaðarlausar skýrslur sem eiga sér í raun og veru engan samastað og alls ekki a.m.k. hjá okkur þingmönnum.