Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 14:21:03 (1958)


[14:21]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð í upphafi að segja það að ég er ekki mjög hissa á því þó að við séum komin hér rétt eina ferðina enn til þess að ræða nýsamþykkt lyfjalög sem meiri hlutinn afgreiddi í vor. Það gerðist fljótlega eftir það að setja þurfti bráðabirgðalög sem síðan þurfti að fá staðfestingu Alþingis á vegna þess að ekki hafði verið staðið nógu vel að þessari lagasetningu og nú erum við hér með enn eina breytingu á þessum nýju lögum sem varðar afgreiðslu dýralækna á dýralyfjum. Ég er alveg sannfærð um að þetta er ekki í síðasta sinn sem við eigum eftir á næsta ári að taka þessi lög fyrir vegna þess að þar rekst hvað á annars horn eins og við bentum á í umræðunni um lyfjalögin.
    Í þeirri umræðu kom þó skýrt fram hvað snertir þessa breytingu að það væri ekki álit hæstv. heilbrrh. að dýralæknar gætu ekki afgreitt lyf til bænda. Hæstv. ráðherra lýsti þeim skilningi sínum við umræðuna þegar mælt var fyrir frv. um lyfjalög. Þá segir hann þegar hæstv. ráðherra tíundar breytingarnar:
    ,,Í frv. er gert ráð fyrir að allir dýralæknar fái heimild til að kaupa lyf í heildsölu til að nota í sjúkravitjunum en ekki einungis héraðsdýralæknar eða apótek eins og nú er. Gert er ráð fyrir að þeir hafi síðan heimild til að selja dýralyf á allt að hámarksútsöluverði sem ákveðið er af lyfjagreiðslunefnd.``
    Þetta var þá túlkun hæstv. ráðherra sem síðan hefur komið fram í viðræðum og þeirri greinargerð sem ráðuneytið hefur skilað til heilbr.- og trn. En þrátt fyrir þetta virðist svo hafa farið að þetta atriði í lyfjalögunum hafi ekki verið nægilega skýrt eins og reyndar svo mörg önnur þannig að dýralæknar hafa túlkað þetta allt öðruvísi en heilbrrn. og hæstv. heilbrrh. Reyndar kom það einnig fram við 1. umr. um lyfjalögin, í ræðu hv. þm. Árna Mathiesens en hann sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það er öllum lyfjabúðum heimilt að selja dýralyf. Það er hins vegar rétt að héraðsdýralæknar hafa leyfi til að selja dýralyf og reka nánast dýraapótek og í mörgum tilfellum er litið á það sem nokkurs konar launauppbót. Ég tel að lyfsala lækna, og þar með talin dýralækna, sé óeðlileg. Fjárhagsleg tengsl lækna við lyfsöluna eru óeðlileg og eiga ekki að eiga sér stað. Það á enginn læknir að vera settur í þá stöðu þegar hann er að ávísa á lyf eða ákveða hversu langur lyfjakúr eigi að vera að hann fari að hugsa til þess hvernig staðan sé á ávísanareikningnum hjá honum og ættum við því að forðast slíkt. Ég tel að þetta frv. leggi ákveðnar línur í þeim málum. Ekki er gert ráð fyrir því hér að dýralæknar reki lyfjaverslanir heima hjá sér en hins vegar er tekið tillit til þess hvernig háttar um landbúnað hér á landi. Hann er dreifður vítt um sveitir og dýralæknar þurfa auðvitað að hafa lyf til þess að nota í sínum vitjunum og til þess að bændur geti notað í eftirmeðferðinni sem þar á eftir fylgir.``
    Þetta sagði, virðulegur forseti, hv. þm. Árni Mathiesen, sem jafnframt er dýralæknir að mennt og hefur starfað sem slíkur. Síðar í umræðunni þegar hv. þm. var vændur um að vita ekki alveg nákvæmlega um hvað hann væri að tala þó að hann hefði þessa menntun þá kom það fram að hann hefur starfað sem almennur dýralæknir í héruðum í þremur kjördæmum á landinu, í Reykjaneskjördæmi, Suðurlandskjördæmi og Austurlandskjördæmi og auk þess hefur hann starfað sem dýralæknir í fisksjúkdómum, með réttindi og skyldur héraðsdýralæknis. Hv. þm. Árni M. Matthiesen hefði átt að vita nákvæmlega um hvað hann var að tala. Það kemur jafnframt skýrt fram í hans ræðu að þó hann fylgi því meginmarkmiði frv. að ekki sé um það að ræða að ávísun lyfja og sala séu á sömu hendi þá telji hann að þörf bænda sem búa í mjög mikilli fjarlægð frá apóteki til að nálgast dýralyf sé fullnægt með því frv. sem þarna var á ferðinni og nú er orðið að lögum.
    En túlkunin verður hins vegar önnur, framkvæmdin er önnur og við allir hv. þm. sem í heilbr.- og trn. sitja höfum orðið áþreifanlega varir við það á undanförnum vikum nú í sumar að bæði bændur og dýralæknar túlka lyfjalögin allt öðruvísi en hér var gert og kom fram í umræðunni, ekki bara í 1. umr. heldur aftur í 2. og 3. umr. um frv.
    Heilbr.- og trmrn. hefur skilgreint þetta og sent þessa skilgreiningu til okkar sem sitjum í heilbr.- og trn. þar sem þeir staðfesta að þeir telji að lögin heimili dýralæknum að selja dýralyf til bænda í dreifðum byggðum landsins þar sem langt er í apótek eða lyfjabúð. Í greinargerðinni sem heilbr.- og trn. fær frá ráðuneytinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Í eldri lögum, 58. gr. laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, var gert ráð fyrir að sala dýralyfja færi fram í lyfjabúðum og lyfjaútibúum. Héraðsdýralæknum var þó einnig heimilt að selja dýralyf. Öðrum dýralæknum en héraðsdýralæknum var ekki heimilt að selja dýralyf.``
    Í eldri lögum var þannig gert ráð fyrir að sala dýralyfja eins og annarra lyfja færi aðallega fram í lyfjabúðum. En litið var á lyfjasölu héraðsdýralækna sem undantekningu, enda segir í 5. gr. framangreindra laga: ,,Starfandi læknir, tannlæknir, dýralæknir, má ekki vera eigandi eða starfsmaður lyfjabúðar.
    Enn fremur segir í þessari greinargerð frá heilbr.- og trmrn., með leyfi forseta:
    ,,Í 30. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, er fjallað um heimildir dýralækna og annarra lækna til að kaupa lyf í heildsölu og afhenda á stofu og í sjúkravitjunum vegna sinna læknisverka.``
    Í greininni segir að lyfjaheildsölum sé heimilt að selja lyf lyfsöluleyfishöfum, stofnunum sem hafa sérfræðinga í þjónustu sinni og reknar eru samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða öðrum sérlögum, læknum, tannlæknum og dýralæknum til notkunar á eigin stofum eða í sjúkravitjunum og þeim tilraunastofum sem vinna að rannsóknum lyfja. Kostnaður lækna, tannlækna og dýralækna vegna slíkra lyfjakaupa fellur undir rekstrarkostnað. Þóknun fyrir lyfjaafhendingu dýralækna skal vera ákveðin af lyfjaverðsnefnd í samráði við yfirdýralækni.``
    Túlkun ráðuneytis á þessari grein hefur verið eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvað varðar lækna, tannlækna og dýralækna er átt við þau lyf sem þessir aðilar þurfa nauðsynlega á að halda vegna læknisverka sinna. Hér er átt við lyf sem sjúklingur er meðhöndlaður með eða fær afhent af lækni, tannlækni eða dýralækni á eigin stofu eða í sjúkravitjunum. Í 30. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, segir að þóknun fyrir lyfjaafhendingu dýralækna skuli ákveðin af lyfjaverðsnefnd í samráði við yfirdýralækni, sbr. 40. gr. Þar sem tilvísun 40. gr. heyrir undir þann kafla sem frestað hefur verið til 1. nóv. 1995 telur ráðuneytið að allir dýralæknar hafi leyfi til að kaupa lyf í heildsölu til notkunar á eigin stofum og í sjúkravitjunum.``
    Þetta er túlkun frá heilbr.- og trmrn. á þeim lögum sem hér er verið að leggja til breytingu á. Þetta er, virðulegur forseti, hluti af því að ég skrifa undir þetta frv. með fyrirvara. Meginreglan á að vera sú að sami aðili hafi ekki með höndum að vísa á lyf og selja þau. Það er óeðlilegt. Það eru óeðlileg tengsl. Það var eitt af því fáa sem við vorum nokkurn veginn sammála um, heilbr.- og trn., við umfjöllun lyfjalaga. Ég er búin að lesa yfir þá umræðu frá upphafi til enda og þar var ekki gerður ágreiningur um þetta markmið að meginreglan skyldi verða sú. Því skyldi maður ætla að til þess að leysa nákvæmlega þetta mál sem hér um ræðir vegna þess að túlkunin hefur verið með þeim hætti sem við höfum fengið að heyra þá hefði verið eðlilegra að um undanþáguákvæði hefði verið að ræða, undanþágu frá meginreglunni. En því er ekki að heilsa. Hér erum við að leyfa dýralæknum að ávísa og selja dýralyf. Að vísu undir verðlagsákvæðum og undir eftirliti yfirdýralæknis og samkvæmt reglugerð sem hæstv. heilbrrh. á að setja. Engu að síður er þetta brot á þessari meginreglu. Í greinargerðinni kemur fram að nefndin hafi leitað til samkeppnisráðs og beðið Samkeppnisstofnun um álit. Það álit kemur til okkar 15. nóv. og í greinargerð með frv. segir að fram hafi komið í áliti Samkeppnisstofnunar að lyfsala dýralækna sýndist ekki samræmast þeirri hugsun sem væri að baki síðari mgr. 21. gr. lyfjalaga, sem hljóðar svo:
    ,,Starfandi læknar, tannlæknar og dýralæknar, mega ekki vera eigendur, hluthafar eða starfsmenn lyfjabúða.``
    Heilbr.- og trn. leggur því til að bætt verði við síðari mgr. 21. gr. laga nýjum málslið til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 3. gr. frv. þessa þannig að í ákvæðinu segi að um lyfsölu dýralækna gildi 5. mgr. 30. gr. Þá bendir nefndin á að jafnframt komi fram í áliti Samkeppnisstofnunar að byggðasjónarmið kynnu að réttlæta undantekningu varðandi lyfsölu dýralækna.
    Í áliti Samkeppnisstofnunar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á hinn bóginn kunna að vera til rök fyrir þessari skipan mála svo sem á grundvelli byggðasjónarmiða. Samkeppnisstofnun tekur ekki afstöðu til slíkra sjónarmiða``, segir í þessari álitsgerð sem við fengum frá Samkeppnisstofnun. Samkeppnisstofnun var beðin um umfjöllun almenns eðlis en ekki umsögn um einstakar greinar frv. og því er álit Samkeppnisstofnunar í samræmi við það.
    Það kom fram í viðræðum okkar við fulltrúa Samkeppnisstofnunar sem mætti á fund hv. heilbr.- og trn. að ef um undanþáguákvæði eða heimild í undanþágutilvikum væri að ræða þá teldu þeir það ekki vera eins ljóst að þetta bryti í bága við samkeppnislögin. Það kom einnig fram að það væru ákveðnar efasemdir um það hvort lagasetning sem þessi stæðist stjórnsýslulög.
    Mér fannst og finnst, virðulegur forseti, þetta vera næg ástæða til að skrifa undir frv. með fyrirvara og hefði talið skynsamlegra að það frv. sem við afgreiðum hér væri aðeins heimild. Við fylgdum þeirri meginreglu sem sett var við setningu lyfjalaga og reyndar áður, en hér væri aðeins um heimild til þess að túlka þann vilja sem kom fram hjá hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir frv. til lyfjalaga þar sem kemur mjög skýrt fram vilji ráðuneytis að mínu viti og túlkun og reyndar í umfjöllun nefndarinnar á þessum tíma því ég hef einnig skoðað minnispunkta frá því tímabili. Það kemur mjög skýrt fram að ráðuneytið túlkar þetta á þann veg sem ég las hér upp áðan úr greinargerð frá heilbr.- og trn.
    Það má enginn skilja orð mín þannig að ég sé á móti því að bændur geti nálgast lyf á sem auðveldastan máta fyrir dýrin sín. Það er aldeilis ekki þannig. Mér finnst bara eðlilegt að við tökum tillit til þeirra laga sem við höfum þegar samþykkt, sem þegar hafa hlotið staðfestingu og þó við séum ekki á einu máli um hvort þau séu góð eða slæm þá réttlætir það ekki að brjóta lög í mínum huga. Þó ég hafi ávallt verið sannfærð um að um slæma lagasetningu væri að ræða þá réttlætir það ekki að brjóta þau. Sú tillaga sem við sáum reyndar að hafði verið sett upp þar sem var um heimildarákvæði að ræða, undanþágu, ég taldi að það væri skynsamlegra fyrir okkur að setja það en um það náðist bara ekki samkomulag hvorki innan nefndarinnar né þeirra aðila sem komu að þessu máli. Þá vaknar sú spurning: Hagsmuni hverra erum við að verja? Ef það er verið að tryggja aðgengi þeirra sem þurfa að nota lyfin, þ.e. bænda, að dýralyfjum þá hefðum við getað fullnægt því með heimildarákvæði. Ef við hins vegar erum að tala um að það eigi að fullnægja báðum skilyrðum, þ.e. bæði að auðvelda aðgang bænda að dýralyfjum og einnig að þetta sé kjaramál eins og fram kom reyndar í ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesens við 1. umr. um lyfjalög, þá verður frv. að vera eins og það er í dag.
    Ég vil gjarnan trúa því að meginmarkmiðið sé að tryggja bændum aðgengi að dýralyfjum. Vegna þess að hér hefur komið fram í umræðum aftur og aftur á undanförnum dögum að við leysum ekki kjaramál eða kjaradeilur í sölum Alþingis. Það er ekki okkar hlutverk. Þess vegna vil ég gjarnan trúa því að meginmarkmiðið sé hitt.
    Annað sem kom mér svolítið á óvart í þessari umfjöllun allri, og hv. formaður heilbr.- og trn. hefur reyndar tjáð mér að sé allt í lagi og stangist ekkert á við lög, er að í umræðunni fyrir nokkrum mánuðum síðan var því haldið fram aftur og aftur að verðlagning lausasölulyfja yrði að vera frjáls, annars værum við að brjóta EES-samning sem Alþingi hefur líka samþykkt að gerast aðili að, þá værum við að brjóta EES-samkomulagið. Á öllum lausasölulyfjum yrði að vera um frjálsa álagningu að ræða. En nú bregður hins vegar svo við að það brýtur ekki lengur í bága við EES-samninginn þó að á lausasölulyfjum þegar um er að ræða dýralyf sé ekki lengur frjáls álagning. Þá eru kröfur EES varðandi frjálsa verðlagningu lausasölulyfja ekki lengur til staðar. Lái mér nokkur þó ég skrifi undir með fyrirvara þegar upplýsingarnar eru misvísandi. Það eru ekki aðeins lyfjalögin sem slík sem eru misvísandi. Úr því að dýralæknar og bændur hafa þá túlkun sem raun ber vitni á þessum nýsamþykktu lögum og við allt aðra túlkun og heilbrrn. jafnvel þá þriðju þá er ekki nema von að skrifað sé undir með fyrirvara.
    En í trausti þess að við leysum þó þetta ágreiningsmál og það sé tilgangur okkar fyrst og fremst að auvelda bændum aðgengi að dýralyfjum þá stend ég að frv. en finnst þó rétt að þessir fyrirvarar mínir komi fram varðandi samkeppnislögin, stjórnsýslulögin, EES-samninginn og reyndar lyfjalögin í heild sinni. Því ég ítreka enn og aftur, virðulegi forseti, þar rekst hvað á annars horn. Því fyrr sem okkur gefst tækifæri til að taka þessi lög til endurskoðunar í heild sinni þeim mun betra. Svona vinnubrögð, að setja fyrst bráðbirgðalög og síðan staðfestingarlög og koma síðan inn með enn eina breytinguna, geta aldrei leitt af sér góð heildstæð lög ef við ætlum að vinna þetta svona. Ágallar þessara laga voru svo margir, þeir voru tíundaðir í umræðu og ég vil bara hvetja hv. þm. til að lesa þá umræðu, fara yfir þetta og viðhalda vöku sinni gagnvart þessum lyfjalögum sem eru þó í gildi. Ekki eingöngu það sem lýtur að dýralyfjum og framkvæmd þeirra og aðgengi bænda að dýralyfjum heldur öll lögin eins og þau leggja sig því þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar. Og þó að við viljum gjarnan að sjónarmið neytenda ráði ferðinni þá verðum við auðvitað að passa upp á það fyrst og síðast að við séum ekki hér að ganga frá lagasetningu sem brýtur í bága við önnur lög.