Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 14:59:04 (1961)


[14:59]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi kom það fram í ræðu hv. þm. Finns Ingólfssonar að ég hefði haldið því fram að þetta væri sérstakt kjaramál lækna. Það er ekki þannig. Ég vitnaði í ræðu sem hv. þm. Árni Mathiesen flutti við 1. umr. um lyfjalög fyrir ári síðan og ég sagði að ég vildi gjarnan trúa því að meginmarkmiðið væri hitt að veita þá þjónustu sem við viljum öll bæta. Ég nefndi heldur aldrei að heilsugæsluumdæmi væri það sem skyldi ráða eða apótek á svæði, ef apótek væri í heilsugæsluumdæmi, þá væri það nægjanlegt heldur þegar um ákveðna fjarlægð er að ræða frá sveitabæ eða sveitabýli, við getum tekið 30--50 eða 70 km radíus frá viðkomandi lyfjabúð, þá væri það í undanþáguákvæði og það mundi verða mótað í reglugerð hverjar undanþágurnar ættu að vera. Í greinargerð frv. stendur vissulega að fram komi

í áliti Samkeppnisstofnunar að lyfsala dýralækna sýndist ekki samrýmast þeirri hugsun sem vissulega er að baki 2. mgr. 23. gr. lyfjalaga o.s.frv. en í áliti Samkeppnisstofnunar stendur hins vegar:
    ,,Í því sambandi skal vakin athygli á að samkvæmt 24. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, er lyfsölum skylt að hafa á boðstólum lyf sem selja má hér á landi og hæfilegar birgðir miðað við ávísanir m.a. dýralækna sem starfa á viðkomandi svæði.``
    Samkeppnisstaða dýralækna og lyfsala verður með öðrum orðum ekki jöfn og því stríðir frv. eins og það liggur fyrir gegn markmiði samkeppnislaga þannig að orðalagið í áliti Samkeppnisstofnunar og hins vegar greinargerðarinnar er svolítið misvísandi.