Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:01:09 (1962)


[15:01]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Svo að það sé alveg skýrt, þá var ég að vitna í kjaramálaumræðu hv. þm. Árna Mathiesens og ég var alveg meðvitaður um það að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir var að vitna þar orðrétt í það sem hv. þm. sagði hér fyrr við umræðuna.
    Varðandi hitt atriðið sem snýr að því að tryggja þjónustuna við bændur í heilsugæsluumdæmunum, þá er eins og ég hef sagt lyfjaverslun í öllum heilsugæsluumdæmum landsins. Um leið og menn stigu það skref sem menn eru mjög hræddir við og hefur komið hér fram í umræðunni að mönnum sé hugsanlega mismunað og menn séu settir í þá stöðu að hafa fjárhagslegan ávinning af því að hafa lyfsöluna sjálfir á hendi eins og dýralæknar hafa ef ekki væri um það að ræða að menn skipulegðu verðið, ákvæðu verðið fyrir þá, ef radíusinn yrði settur upp sem meginregla þá er sú hætta til staðar að innan dýralæknahópsins gætu menn farið að mismuna. Það er hætta á því og það var af þeirri ástæðu sem mér leist ekki á þessa tillögu og það er enginn vafi á því að ég vissi nákvæmlega hvað hv. þm. var að meina þegar þetta var sett fram á sínum tíma.
    Virðulegi forseti. Bara til að ítreka það, ég tel að það séu í þessum lögum um lyfjamál ekki þær forsendur til staðar að hægt sé að tala um að samkeppni sé í lagabálknum og það séu skapaðar þær aðstæður að um samkeppni sé að ræða. Þess vegna tel ég að það sé í góðu lagi að ákveða þessa hluti með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.