Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:06:22 (1964)


[15:06]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta frv. um breyting á lyfjalögum, sérstaklega að því er lýtur að sölu dýralyfja. Ég held að það sem sammerkt er með öllum þeim ræðum sem haldnar hafa verið hér um málið sé að það liggur eindreginn vilji hjá öllum hv. þm. að

finna lausn á þeim vanda sem við blasir og þeim hnút sem leysa þarf.
    Ég ætla ekki að taka þátt í hinum almennu umræðum um lyfjamál sem hér hafa farið fram. Ég vil samt segja það að ég tel að þau lyfjalög sem afgreidd voru sl. vor hafi verið mjög mikilvægt og brýnt skref og þeim beri að fagna. Hér var ekki um neitt slys að ræða. Hér hefur verið vitnað til þess að þurft hafi að setja bráðabirgðalög til þess að leysa ákveðið mál sem upp kom. Ég vil minna á að sú breyting sem gerð var á frv. á milli 2. og 3. umr. hér nánast í þingsalnum olli því að það varð að setja bráðabirgðalög sl. sumar. Hér var gert samkomulag af hálfu formanna þingflokka um að breyta nefndaráliti og niðurstöðum hv. heilbr.- og trn. og í því samkomulagi láðist að gera ráð fyrir að einhver skipan þyrfti að gilda á meðan beðið væri eftir hinu nýja sölufyrirkomulagi er væntanleg lög boðuðu tækju gildi 1. nóv. 1995. Ef menn eru að tala um að þar hafi orðið slys, þá ráðlegg ég hv. þingmönnum öllum að horfa í eigin barm vegna þess að þá bera þeir slysið utan á sér. Það er ekki við neina aðra að sakast en hv. þingmenn sjálfa. Þess vegna skil ég ekki þegar hér koma menn og þvo hendur sínar af því að hafa ekki verið þátttakendur í þeim gjörningi. En það eru kannski dæmi um vinnubrögðin hér á hinu háa Alþingi síðustu daga fyrir jól og á vorin þegar verið er að semja um mál, rífa mál upp sem búið er að leggja mikla vinnu í í hv. þingnefndum eins og varðaði lyfjamálið. Við höfðum setið yfir því máli nokkra mánuði á mörgum, mörgum fundum og skiluðum því af okkur hér inn í þingið í mjög vönduðum búningi. Það var að kröfu stjórnarandstöðunnar sem sú vandaða vinna var rifin upp. Út úr því varð slys. Það er rétt, það varð að setja bráðabirgðalög í framhaldi af samkomulagi við stjórnarandstöðuna þannig að ég held að hv. þingmenn ættu nú að hafa sem fæst orð um það án þess að líta í eigin barm og ekki reyna að benda á aðra sem sökudólga í þeim efnum og þá beinast spjótin í þeim umræðum að okkur hv. þingmönnum sem sitjum í heilbr.- og trn.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða almennt um lyfjalögin en segja að það sem við höfum verið að ræða hér í dag felst í því að við erum að reyna að leysa vandamál sem við blasir. Það er uppi ágreiningur á milli heilbr.- og trmrn., bænda og dýralækna um túlkun á tilteknum ákvæðum um afhendingu og sölu dýralyfja. Og það er ekki hægt að leysa þennan ágreining öðruvísi en með lagasetningu. Það kom vel fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur hversu margar hliðar eru á þessu máli og hversu flókið það er allt saman og ekki auðvelt að ná fram einni niðurstöðu sem allsherjarsátt mundi skapast um. Ég tel nú samt að hér séum við næst þeirri niðurstöðu sem tryggir sátt og tryggir þá skipan sem við öll viljum, gott aðgengi bænda og annarra sem þurfa á dýralyfjum að halda og annars vegar stöðu dýralækna varðandi sölufyrirkomulagið sjálft. Það þarf að liggja skýrt fyrir hver staða dýralækna er annars vegar andspænis útgáfu ávísana og hins vegar andspænis afhendingu og sölu lyfjanna og hins vegar þurfa að liggja fyrir skýr fyrirmæli um það hvernig með þessi mál skuli fara í lyfjabúðum. Ég held að okkur hafi tekist í þessu frv. að kveða skýrt á um þetta allt og ná bærilegri niðurstöðu sem hægt er að sameinast um.
    Hæstv. forseti. Ég sagði hér í upphafi máls míns að ég legði til að málinu yrði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Mér hefur verið tjáð að þar sem hv. heilbr.- og trn. flytur málið, þá sé ekki þörf á því að vísa málinu til hennar svo ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr.