Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:13:57 (1966)


[15:13]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þar sem svo margir hv. alþm. höfðu tekið það sem samnefnara fyrir slysið um setningu nýrra lyfjalaga hér sl. vor varðandi það að þurft hefði að setja bráðabirgðalög sl. sumar þá fannst mér rétt og skylt að segja frá því hver forsenda þeirrar bráðabirgðalagasetningar var og hvernig hún var til komin. Með öðrum orðum, hún var afleiðing af hrossakaupum í þinginu á milli stjórnarandstöðunnar sem

stóð gegn lyfjafrv. þó að sýnt væri að það hefði meiri hluta og um það náðist samkomulag að fresta tilteknum þáttum málsins að kröfu stjórnarandstöðunnar. Í þeim samningum við stjórnarandstöðuna fórst fyrir að geta tiltekinna nauðsynlegra atriða sem hafði verið gert í áliti hv. heilbr.- og trn. þegar það lá fyrir í þinginu. Þetta taldi ég rétt að kæmi fram.
    Í öðru lagi varðandi það að stjórnarandstaðan beri ekki ábyrgð á lyfjalögunum þá vil ég taka það fram að hún tók einmitt fullan þátt í allri vinnu málsins og ég minnist þess ekki og hef lesið yfir ræður hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur að hún hafi nokkurn tíma haft áhyggjur af því hér úr ræðustól eða í starfi hv. heilbr.- og trn. að verið væri að breyta þeirri skipan um sölu dýralyfja eins og hún hefur gengið fyrir sig fyrir gildistöku laganna eða eins og hún ætti að vera eftir gildistöku laganna. Það stóðu allir í þeirri góðu trú að við værum að staðfesta óbreytta skipan hvað þetta snertir, ég líka.