Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:16:14 (1967)


[15:16]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. formanni heilbr.- og trn. að ástæðan fyrir því að það þurfti að setja bráðabirgðalög hafi verið sú að þessi vandaða vinna heilbr.- og trn. var rifin upp, það er ekkert annað. Það sem gerðist var að það var frestað gildistöku ákveðinna kafla þessara laga. Það var nú allt og sumt sem rifið var upp, það var frestað gildistöku. Og að setja það sem einhverja sérstaka stóra sök og tala um hrossakaup, mér finnst þetta bara villandi málflutningur. Vissulega berum við öll ábyrgð á því hvernig fór því að við eigum auðvitað að fylgjast það vel með lagasetningu að svona mistök eigi sér ekki stað. En það var fallist á þá ósk minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, að fresta gildistöku ákveðinna kafla. Það var ekki hróflað við þessari ,,vönduðu vinnu`` heilbr.- og trn. Við töldum hana ekki nógu vandaða vegna þess að við vildum láta leggja meiri vinnu í lyfjalögin. Við vildum láta þau bíða og leggja í þau enn meiri vinnu. Við vorum ekki sammála um það hvort þarna hefði átt sér stað vönduð vinna eða góð eða nægjanleg.