Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:18:04 (1968)


[15:18]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alltaf álitamál, undir það get ég tekið, hvenær vinna er vönduð. En þegar búið er að fjalla ítarlega um sama mál á tveimur þingum og setja nefnd í málið á milli þinga og síðan að vinna málið enn betur í framhaldi af því nefndarstarfi og ná um mörg atriði er deilum hafa valdið sæmilegri sátt, þá lít ég svo á að einhvern tíma þurfi menn að segja: Nú erum við búin að komast að niðurstöðu.
    Þetta sem var verið að ræða í sambandi við slysið vegna bráðabirgðalaganna þá var ég einvörðungu að skýra frá því hvernig það hafi orðið til. Stjórnarandstaðan krafðist þess að þessu máli væri vísað frá af pólitískum ástæðum, ekki af því að málið væri ekki nógu vel unnið heldur af pólitískum ástæðum. Það kom greinilega fram í umræðunni í þinginu og slík sjónarmið ber að virða. En með málþófi á síðustu dögum þingsins og hótunum um enn meira málþóf þá krafðist stjórnarandstaðan þess að það yrði sest að samningum og það var samið um, og ég kalla það pólitísk hrossakaup þegar menn eru beittir slíkri kúgun í krafti málþófs, að fresta þeim köflum, VII. og XIV. kafla frv., sem ollu mestum deilum, að fresta þeim til 1. nóv. árið 1995, en mönnum láðist í hita leiksins og í öllum samningunum að átta sig á því að það þyrfti einhver skipan að gilda á meðan frestunin varði. Og menn voru svo uppteknir af samningunum við að koma í veg fyrir málið að þeim láðist í hita leiksins að gera það sem gera þurfti, að vinna sína vinnu af því að málinu var ekki vísað aftur til heilbr.- og trn. og þetta samkomulag var ekki gert þar.