Fréttaflutningur af slysförum

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:31:46 (1971)


[15:31]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi tillaga hefur legið fyrir þremur þingum og þetta er í fjórða sinn sem hún er lögð fram. Þetta er ein af þeim tillögum sem vekur furðu manns að hafi ekki verið samþykktar, að hún hafi ekki verið afgreidd frá Alþingi þar sem hér er tekið á svo sjálfsögðu máli og lagt fram á mjög jákvæðan hátt án þess að verið sé að vega að nokkru og ekki einu sinni lögð til reglugerðarsetning eða lagasetning heldur aðeins samræmdar starfsreglur að frumkvæði ráðherra.
    Ég tek undir tillöguna og hvet eindregið til þess að nefndin sem hana fær til umfjöllunar komist fram úr því að lesa hana og fjalla um hana og ljúki afgreiðslu hennar og koma henni inn til okkar aftur til jákvæðrar afgreiðslu.
    Það skiptir öllu máli að fjölmiðlar fjalli ekki á óábyrgan eða tillitslausan hátt um slysfarir eða harmraunir fólks. Það hefur gerst. Það er auðvitað sem betur fer undantekningartilvik en það hefur gerst og það verður þess valdandi að svona tillögur eru lagðar fram. Það er ekki að ástæðulausu.
    Ég held reyndar að það ætti einnig að móta starfsreglur um fréttaflutning af afbrotum og meðferð afbrotamála. Á sama hátt þarf að taka tillit til aðstandenda og aðstæðna sakamanna en fara ekki af stað í kapphlaupi um fréttaöflun með það eitt að leiðarljósi og ekkert annað.
    Eins og ég hef áður sagt tek ég undir tillöguna og hvet til þess að hún fái fljóta og góða afgreiðslu og þó að þinghald sé stutt í vetur og þetta sé ekki eina tillagan sem er lögð fram í fjórða, fimmta eða sjötta sinn og send inn til sömu nefndar þá sé þetta nú þannig að menn hafi kannað þetta mál nægjanlega vel á undanförnum þremur árum til þess að geta lokið afgreiðslu tillögunnar á tiltölulega stuttum tíma.