Ólympískir hnefaleikar

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:38:34 (1973)


[15:38]
     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða endurflutning á máli sem tvívegis áður hefur verið flutt á Alþingi en hefur ekki hlotið afgreiðslu og er þess því freistað í þriðja sinn að fá fram afgreiðslu á málinu af hálfu þingsins. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til þess að kanna hvort rétt sé að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi.
    Nefndin skal afla upplýsinga um keppnisreglur, slysatíðni miðað við aðrar ólympískar íþróttagreinar og með hvaða skilyrðum ólympískir hnefaleikar eru leyfðir erlendis. Að fengnu áliti Íþróttasambands Íslands skili nefndin tillögu til ríkisstjórnarinnar. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. september 1995.``
    Með tillögugreininni fylgir svohljóðandi greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Allt frá 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi en fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Rétt er að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum sem stundaðir eru m.a. í Bandaríkjunum. Reglur og öryggiskröfur eru afar ólíkar, m.a. er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Einungis er lagt til að athugað verði hvort tímabært sé að aflétta banni við hnefaleikum samkvæmt þeim keppnisreglum sem gilda á Ólympíuleikum.
    Samkvæmt tiltækum upplýsingum er ekki vitað til þess að ólympískir hnefaleikar séu bannaðir erlendis og geta má þess að í Svíþjóð var farið fram á það 1983 að þessi íþróttagrein yrði bönnuð. Þá fór fram ítarleg könnun og gerð var skýrsla um ólympíska hnefaleika. Niðurstaða Svía var greininni mjög jákvæð.
    Í ljósi þess og þeirrar staðreyndar að umtalsverður hópur ungmenna hefur áhuga á því hér á landi að iðka ólympíska hnefaleika þykir rétt að fram fari skipuleg upplýsingaöflun um þessa íþrótt og að leitað verði álits Íþróttasambands Íslands; verði niðurstaða nefndarinnar jákvæð verði í framhaldi af því gerð tillaga um að leyfa ólympíska hnefaleika sem keppnisgrein.``
    Almennt má segja um íþróttaiðkun hérlendis að lagaramminn sem starfað er eftir er þannig að íþróttir eru almennt leyfðar og það er á valdi Íþróttasambands Íslands að fylgjast með upptöku nýrra greina og setja um þær keppnisreglur. Eina frávikið sem er í gildi frá þessari almennu reglu eru hin sérstöku lög um bann við hnefaleikum frá 1956.
    Okkur flm. þykir rétt að láta fara fram sérstaka og skipulagða athugun á því hvort þessi undantekning frá meginreglunni eigi rétt á sér nú á tímum í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á keppnisreglum frá 1956 og raunar þeirri þróun að út úr greininni hefur þróast sérstök keppnisgrein sem nefnist ólympískir hnefaleikar og tillögugreinin fjallar um. Sú íþróttagrein er afar vinsæl erlendis, er m.a. stunduð mjög víða um allan heim og er föst keppnisgrein á hverjum Ólympíuleikum.
    Á Ólympíuleikunum sem haldnir voru 1988 sendu 140 lönd þátttakendur í þessari íþróttagrein sem kepptu í 12 mismunandi þyngdarflokkum, en keppendur voru þá samtals 450 frá þessum 140 löndum.
    Það er athyglisvert að þessi íþróttagrein sem við flm. erum að vekja athygli á hér með tillöguflutningi m.a. er hvergi bönnuð svo að vitað sé erlendis. Það hlýtur að vera a.m.k. tilefni til íhugunar á málinu hvort rétt sé að banna með sérstökum lögum keppnisgrein af þessu tagi sem stunduð er á Ólympíuleikum, sérstaklega í ljósi þess að almennur lagarammi hérlendis er að allar íþróttagreinar eru leyfðar. Meðal þeirra íþróttagreina sem hafa náð að festa hér rætur á síðustu árum eru ýmsar austurlenskar bardagaíþróttir eða sjálfsvarnaríþróttir sem eru til í mismunandi útgáfum og ekki hefur verið amast við, hvorki af yfirvöldum né öðrum að væru stundaðar hérlendis. Það hlýtur því að skjóta skökku við að menn telji iðkun slíkra íþróttagreina vera í lagi en vilji ekki fallast á athugun á því hvort þessi íþróttagrein, ólympískir hnefaleikar, falli ekki undir það líka eins og þær austurlensku greinar að rétt sé að leyfa hana undir þeim reglum sem Íþróttasamband Íslands mundi setja um iðkun og keppni. Það er rétt að rifja það upp að á þeim tíma sem lögin voru sett voru þau sett í mikilli andstöðu við forustu Íþróttasambands Íslands sem benti einmitt á að samkvæmt almennum lögum væri það á forræði sambandsins að fylgjast með því hvaða greinar væru leyfðar og hverjar bannaðar og það væri rétt að hafa það að Íþróttasambandið færi með það í þessu tilviki eins og öðrum.
    Eins og ég gat um áður hefur þessi tillaga verið flutt á tveimur fyrri þingum og um hana hafa borist umsagnir, m.a. frá nokkrum aðilum sem hafa mælt með að hún verði samþykkt. Þar má nefna Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands og stjórn Íþróttakennarafélags Íslands. Allir þessir aðilar mæla með því að tillögugreinin eins og hún hljóðar verði samþykkt.
    Virðulegi forseti. Það er óþarft að fjölyrða meira um efni tillögunnar. Það er tiltölulega skýrt og rökin augljós og ég vænti þess að hv. Alþingi ljúki afgreiðslu þingmálsins að þessu sinni og kynni sér þau gögn sem fyrir liggja og hafa verið lögð fram í málinu af flutningsmönnum og öðrum aðilum og m.a. þá athyglisverðu skýrslu sem Svíar gerðu á sínum tíma og var gerð undir forustu Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi þar sem bornir voru saman þrír hópar íþróttamanna, menn sem stunduðu ólympíska hnefaleika, knattspyrnu og frjálsar íþróttir, og athuguð áhrif íþróttaiðkunarinnar á keppnishópana, bæði andleg og líkamleg. Í skemmstu máli má segja að niðurstöðurnar urðu þær að enginn merkjanlegur munur reyndist á iðkendum eftir íþróttagreinum. Það hlýtur að verða afar athyglisverð niðurstaða og hvetja menn til þess að taka þetta mál til athugunar.
    Virðulegi forseti. Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.