Fyrirspurn um launaþróun sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga

43. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 16:36:21 (1984)

[16:36]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Verkfall sjúkraliða er búið að standa um hríð og hefur valdið miklum erfiðleikum eins og kunnugt er hér í þingsalnum. Það hefur einnig komið fram að lykilatriði í þeim viðræðum sem reynt hefur verið að þróa síðustu daga hefur verið spurningin um traustar upplýsingar um launaþróun, t.d. hjá sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Skorturinn á þessum upplýsingum er greinilega farinn að koma í veg fyrir að alvarlegar viðræður geti þróast í þessari erfiðu deilu.
    Ég bar fram í síðustu viku, á þskj. 270, fsp. til hæstv. fjmrh. um launaþróun sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Ég setti fram þá skoðun í utandagskrárumræðu að ef hæstv. fjmrh. vildi greiða fyrir því að umræður hæfust í alvöru og renna stoðum undir þær fullyrðingar sem samninganefnd ríkisins hefur sett fram þá hlyti hæstv. fjmrh. að vera kappsmál að svara þessum spurningum hið fyrsta. Ég setti fram þá ósk að á næsta fyrirspurnadegi þingsins mundi hæstv. fjmrh. svara þessari fyrirspurn. Nú er hér að hefjast innan tíðar nýr fundur, fyrirspurnafundur, og fyrirspurnin er ekki á dagskrá.
    Samkvæmt venjum þingsins koma fyrirspurnir ekki á dagskrá aftur í þessari viku. Þar með er ljóst að hæstv. fjmrh. ætlar að láta líða heila viku í viðbót án þess að svara þessari fyrirspurn. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta vegna þess að fyrirspurnin tengist með skýrum hætti sjúkraliðaverkfallinu að forseti beiti sér fyrir því að fjmrh. svari fyrirspurninni á morgun eða næstu daga og það verði gefið svigrúm á dagskránni til þess því ef hæstv. fjmrh. ætlar að draga það lengi að svara þessari einföldu fyrirspurn þá er alveg ljóst að ástæðan getur aðeins verið sú að hæstv. fjmrh. vill ekki að upplýsingarnar komi fram.